<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Tækifærin - mín. 

Augun mín eru farin að sjá svo margt sem þau sáu ekki áður.

Ég fór á Pizza Hut um daginn til að ná í pizzu handa okkur stelpunum þegar vinnukonan mín var í fríi. Eftir að hafa sjálf unnið bæði í veitinga- og skyndibitabransanum á mínum yngri árum, bæði hér heima og í útlöndum, fæ ég alltaf hroll þegar ég hugsa um greyið ææ aumingjans fólkið sem þarf því miður að gera sér það að góðu að vera í þessu líka ömurlega djobbi, eins sjúklega leiðinlegt og slítandi það er. Að ganga marga kílómetra á dag fram og tilbaka í stressi (Útsýniskaffihús í Svissnesku Ölpunum) og jafnvel á háum hælum og í minipilsi (veitingahúsið Ítalía), í hita (Píanóbarinn í S-Sviss), angandi af fitu (KFC - jakk) og reykingarlykt (Astro), með feikað bros (alls staðar!) bara af því þig langar í tips (útlönd), eru svo liðin tíð fyrir mig. Sem betur fer. Ég vann í bransanum með skólanum hér heima og svo í útlöndum þar sem ég var útlendingur og enga aðra vinnu að fá þannig séð. En það var samt skárra en að þrífa klósett og búa um rúm og svo var ég Íslendingurinn alltaf voðalega vinsæll þjónn og fékk alltaf miklu meira tips ein hinir innfæddu fyrir grænu augun mín og rauða hárið. Hvað þá 180 sentimetrana og tungumálið. Og fallega feikaða brosið jú. Einu sinni var meira að segja veðmál á einu borðinum mínu í Arosa um það hvað ég væri himinhá. Sá sem vann veðmálið gaf mér peninginn í tips og það var heill hellingur. Þjónar eru þrælar í gerviheimi. Og vá hvað ég fékk nóg af þessu, úff. Aldrei aftur hugsaði ég eftir að skólanum lauk. Aldrei aftur í svona skítavinnu.

Þegar ég hins vegar sat á Pizza Hut að bíða eftir matnum mínum hugsaði ég með mér hvað það væri nú fínt að vinna þarna. Þetta væri nú fín vinna. Þeir sem hér ynnu væru sko heppnir. Svo miklu betra en að selja bílamottur eða banana á miðri götu á gatnamótum, selja ristaðar hentur eða tortillur, gangandi um í hita og svita með birgðirnar á höfðinu og hvað þá að vera öryggisvörður með engin verkefni what so ever nema halda sér vakandi. Þarna vann venjulegt fólk, ábyggilega af millistétt einhvers konar, í loftkældu umhverfi, í hreinum og fínum fötum, með nóg að borða og skemmtilegan félagsskap. Það var mikið af starfsfólki á staðnum, nóg að gera og það hló og gerði grín sín á milli, á milli þess sem það sörveraði svanga Managúaborgara með vinnukonur í fríi.

Ekki það að mig langaði til að þjóna aftur, fjarri því, en ég sá að brosin voru ekki gervi. Ég þekki af eigin raun að brosin á Pizza Hut eru gervi á Íslandi – sem kannski skýrir það hversu léleg þjónusta á íslenskum veitingahúsum er.

Þetta fer jú allt eftir því við hvað miðað er. Hvaða tækifæri við höfum. Ég trúi því að við sköpum okkar tækifæri að miklu leyti sjálf, eða hef trúað því hingað til. Að það sem þú virkilega viljir komi til þín á einhvern hátt. Að þú getir valið og hafnað, ákveðið leiðina að mestu leyti sjálfur. Ég sé það hins vegar nú að þetta á bara við um sjálfa mig og fólk sem hefur það fínt. Tækifæri til hvers? Að lifa daginn, að fá að borða, að komast af. Eða að ferðast, að menntast, að verða forseti.

Tækifærin eru svo fjarri því að vera allra.
Og hér er Pizza Hut án efa gott tækifæri í lífinu fyrir marga.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker