<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Níkagjafir og greiði 

Mig langar að gera svolítið.
Mig langar að gera eitthvað fyrir fólkið í kringum mig hér í Nicaragua sem hefur það ágætt en skortir samt margt sem gæti gert lífið þeirra skemmtilegra og betra. Að þeirra mati og mínu. Þetta eru venjulegir níkar sem vinna fyrir kaupinu sínu og gera sitt allra besta, en þurfa að horfa í hvern cordoba.
Mig langar að vera svolítið stórtæk því ég veit að við getum það. Við eigum fyrir því og þau eiga það skilið. Fólkið sem um ræðir er Walter spænskukennarinn minn, Martin bílstjórinn minn og Eunise vinnukonan mín.

Walter er eins og áður sagði kennari í háskóla hér í borg. Hann kennir spænsku og ensku og er flottur karl. 42 ára 4 barna faðir sem keyrir um á mótorhjóli því hann á ekki fyrir bíl. Hann dreymir um að eignast tölvu til að geta orðið partur af alheimsvisku netsins og unnið og undirbúið kennsluna betur. Hann er með aðgang að tölvu af og til í háskólanum en þar sem hann er bara stundakennari á hann ekki greiðan aðgang að einni slíkri. Hann á 8 mánaða snáða og dreymir um að taka myndir af honum og brosandi spékoppunum hans. Notuð tölva og digital myndavél fer því á listann fyrir hann.

Það er með öllu ómögulegt að finna notaða tölvu hér sem hægt er að treysta að virki og því langar mig að athuga hvort þú lesandi góður á Íslandi lumir kannski á gamalli fartölvu sem þú ert hættur að nota og getur séð af? Ef svo er máttu endilega hafa þig frammi. Ég sé mest eftir því að hafa selt mína gömlu á slikk áður en ég fór. Þessar gömlu vélar eru jú nánast einskis virði í tæknisamfélaginu heima.

Martin bílstjóri á fimm ára tvíbura, stelpu og strák. Þau eiga lítið af dóti þar sem pabbi þeirra þénar 350 dollara á mánuði. Mig langar að kaupa dót handa þeim, bara til að gleðja þau og leyfa þeim að leika sér eins og krakkar eiga að gera.

Eunise á litla 9 mánaða dömu sem heitir Islene, algjör krútta. Euniser fær 5000 kall á mánuði fyrir að þrífa hjá mér fyrir 60% vinnu, sem er það kaup sem gengur og gerist fyrir svona vinnu. Ég þarf náttlega alveg að fara að hækka kaupið hennar enda stendur hún sig svakalega vel. Sú litla hefur verið í miklum læknisrannsóknum vegna heilsuleysis og enn veit enginn hvað er að. Sníkjudýr kannski, eins og mamman er líka með. Læknisþjónusta á góðum spítala, föt og leikföng gæti farið á listann fyrir hana.

Mig langar að gera þetta af því ég get það. Ég legg áherslu á að þetta fólk sem ég nefni hér er ekki fórnarlömb og þjáist ekki úr hungri eða nokkurri neyð. Þetta er vinnandi fólk sem stendur sig vel. Fólk sem elskar að lifa eins og við, en á erfiðara með það vegna peninga. Lífsgæðin þeirra snúast bara í kringum það allra nauðsynlegasta og ekkert aukreitis er leyfilegt. Þau eru hamingjusöm en mér finnst samt svo dapurt að sjá hvað ég hef það svakalega rosalega fínt miðað við þau. Ég er venjuleg íslensk og þau venjulegir Níkar og við erum eins - en samt ekki. Að ferðast er til dæmis ekki inni í myndinni en enginn af þeim hefur komið fyrir utan Nicaragua.

Að gleðja þau með þessum gjöfum er eitthvað sem mig langar til að gera - með ykkur - til að segja þeim og sýna að við erum ekkert skárri en þau. Til að segja að þótt heimurinn sé óréttlátur sé allt hægt. Til að segja að þótt þau séu héðan og þau þaðan eigi þau skilið að hafa það gott og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Ég veit - drama - en þetta er bara raunveruleikinn.

Ég er ekki að gera þeirra "vandamál" (reyndar lít ég ekki á þeirra líf sem vandamál) eða hindranir eða takmarkanir að mínum, og alveg spurning hvort það að gefa "einskis nýta" hluti bæti heiminn eitthvað í heild sinni. Ég er ekki að bjarga heiminum. Ánægjuvog þessa fólks fer hins vegar eilítið upp á við og það skiptir líka máli. Þetta er fólk sem ég þekki orðið persónulega og mig langar að gefa af mér til að segja þeim að það skiptir mig máli að verða að liði. Þetta munar svo miklu fyrir það og svo litlu fyrir okkur.

Svo now is your chance!
Mig langar að gefa Walter aðgang að alheimsvisku netsins og gleðja börnin Martins og Eunise. Ég ætla því að setja af stað smá söfnun til að leyfa ykkur hinum sem hafið tekið þátt í ævintýrinu með mér, með því að lesa frásagnir mínar af þessu fólki. Ef skrif mín um Níkalífið hafa snert, nú eða kennt þér eitthvað - vertu endilega með. Ef þú átt gamla fartölvu sem virkar og þú ert hætt/ur að nota og/eða gamla digital myndavél máttu endilega kommenta hér þess efnis eða senda mér póst á erla.sigurdardottir@gmail.com. Viggi leggur af stað hingað út í næstu viku og gæti tekið þetta með sér svo það er vissulega smá tímapressa.
Og... EF... þú ert síðan aflögufær um nokkrar krónur og vilt vera með í þessum gjöfum sem mig langar til að gefa fólkinu mínu hér þá máttu leggja 1000 kall inn á reikning 0327 - 26 - 4770, kt. 0605763869. Ég veit að ég hlýt alla vega að eiga 10 -15 góða vini, kunningja og ættingja - af þeim 160 manns sem að meðaltali lesa síðuna á dag - sem geta hæglega séð af þúsara.

Ef þetta virkar er það æðislegt frábært og meiriháttar.
Nú ef ekki, þá alla vega var tilraunin þess virði.
E

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker