þriðjudagur, ágúst 14, 2007
Granada

Fyrsta upplifun mín af borginni er hvað hún er falleg ogferðamannavæn.
Það voru merktar götur og skilti sem beindu okkur á rétta staði. Við vorum okkar fínasta pússi eins og Lonely Planet sagði okkur að gera af því það væru miklar líkur á því að við myndum ekki einu sinni skíta okkur út þarna. Það reyndist rétt og við nutum dagsins í góðu veðri þrátt fyrir að spáð hafi verið rigningu. Hún kom ekki til okkar enda við allar í flottustu kjólunum okkar. Sjúkket.
Granada varð til árið 1524 og er elsta borg Ameríku. Hún er svona fín af því hún var í raun byggð sem showcase city þegar Spánverjarnir voru að reyna að sanna fyrir innfæddum og heiminum öllum að þeir hefðu nú upp á fleira að bjóða heldur en skringilega trú og herkænsku. Borgin liggur við Lago de Nicaragua, stærsta vatn í Rómönsku Ameríku og eitt stærsta vatn í heimi og sú staðreynd að Ríó San Juan var aðgengileg frá vatninu og út að sjó gerði borgina mjög mikilvæga fyrr á öldum. Mikilvæga, valdamikla og ríka. Enn í dag er borgin aðlaðandi aðsetur fyrir bisnessfólk, Níka og útlendinga, og við sáum augljóslega að íbúar Granada búa á heildina litið mun betur heldur en margur Managuabúinn.
Já, ferðamennirnir við létum keyra okkur um borgina á hestvagni eins og eðal hefðarfrúm sæmir og fórum í bátsferð á Níkaragúavatni til að líta á nokkrar af þeim 365 eyjum í vatninu. Þá heimsóttum við elstu kirkju í Mið-Ameríku og safn með Zapatera styttum sem þar er í fyrrum klaustri við hliðina á, en það er mörghundruð ára frumbyggjalist úr steinum sem fundust flestar á nokkrum eyjum í Níkaragúavatni snemma á 20. öldinni.
Fagra Granada var svolítið eins og annað land í smá tíma. Alla vega var þetta algjörlega ný hlið fyrir mér, en ég er nú svo sem svo ný ennþá.
Allt var svo svakalega myndarlegt eins og sjá má...

Comments:
Skrifa ummæli