<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

El Mirador de Santo Domingo, Km.8 1/2 Carretera a Masaya, 1 Entrada de Magfor 700 m. al oeste, 100 m. al sur 

Bróðir minn talar í áttum. Afi talaði í áttum. Sunnan við húsgaflinn og austan megin við lækinn. Axel ólst upp í sveit og afi var úr Dýrafirðinum. Gerður er líka drullugóð í þessu, enda nokkuð vel uppalin Níka og líka úr sveit. Dobbelt auðvelt fyrir hana. Ég kann ekki að tala í áttum, og hvað þá rata í áttum, enda bara úr Hafnarfirðinum (sem er sko ekki sveit þótt sumum finnist það). Án gríns vissi ég ekki áður en ég kom hingað út hvort sólin risi eða settist í austri eða vestri. Hún bara rís og sest einu sinni á sólarhring og stundum sé ég það og stundum ekki.

Hér í Managua eru höfuðáttirnar höfuðatriðið - til að rata. Eins og ég hef áður sagt eru engin aktúal heimilisföng hér heldur bara leiðarvísar að stöðum og allt er miðað út frá Managúavatni, metrum, kílómetrum og auðvitað áttum!

Þegar ég ætlaði fyrst um sinn að fara ein að skoða bíl um daginn var bílstjórinn að lýsa leiðinni fyrir mig og talaði í áttum og metrum. Ég sagðist hvorki skilja upp né niður og þá fór hann með mér. Á leiðinni var hann að reyna að útskýra áttirnar út frá sólinni fyrir mér. Hún var að hans sögn byrjuð að færast í vestur því klukkan var eitt og þá var suður þangað og norður hingað. Og við vorum að keyra á fullri ferð í brjálaðri umferð beygjandi hingað og þangað en alltaf vissi hann hvaða átt var hvert. Ok, ég leit til himins og það sem ég sá var að sólin var beint fyrir ofan mig og að hún skini voðalega skært og fallega og myndaði hita. En nei, hún var sko langt frá því að vera beint fyrir ofan okkur, hún var augljóslega í vestur af því skugginn af okkur féll eilítið örlítið í austur (eða hvaða átt var það nú?). Ég á erfitt með hægri og vinstri, hvernig ætti ég að ná þessu?! 100 metrar í suður frá þessum gatnamótum og 700 metra í vestur frá hinum gatnamótunum. Ég er langt frá því að vera með innbyggt metrakerfi í mér, annað en Viggi smiður kannski, og ímynda mér alltaf sundlaugar þegar ég reyni að finna út úr metrunum, hversu margar Laugardalslaugar væri þetta nú hmmm?

Þetta hefur reyndar gengið ágætlega hjá mér, enda hef ég haft þann háttinn á að dissa þessar áttir og fá frekar nálægt hverju og hingað og þangað lýsingu. Svo tek ég bara leigara í fyrsta sinn sem ég er að fara á einhvern erfiðan stað til að stimpla leiðina inn í sjónminnið. Sé sko ekki eftir sjötíukallinum sem fer í það að sleppa við það að fá hálsríg við það að leita að sólinni og reikna svo út eins og frumbyggjarnir formúluna að leiðarendanum út frá ljósi og skugga og metrum!

Ég er með gróðurofnæmi og er hrædd við dýr, en hef nú stundum hugsað það með mér hér að ég hefði kannski samt átt að fara í sveit.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker