<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 19, 2007

Sól og regnbogi 

Sumarfrísdagarnir mínir tveir hafa þvert á móti farið í að sleikja sumarsólina og þeim mun meira í að bruna á milli staða í reddingum og innkaupum - sýslumaður, myndataka, nýtt ökuskírteini, bólusetning, smá vinna, fundur á ÞSSÍ, fasteignasalan, bankinn, fá sumarfríið endurgreitt frá Iceland Express og gistinguna frá Spáni, græja annan leikskóla í júlí fyrir Veru, heimsækja mömmu, kaupa þægindi og afþreyingu fyrir mömmu og útlandaföt fyrir dömuna. Já, á tveimur dögum er mjög margt búið að reddast og skýrast og ég mun rólegri yfir þessu öllu saman. Ég fæ víst nóg af sól í Nicaragua, þar er meðalhitinn núna víst um 32 -35 gráður, alltaf sól, mikill raki og hellidemba einu sinni á dag. Samt jafnast nú fátt á við íslenska sumardaga þegar vel lætur.

Mamma hefur það fínt miðað við aðstæður, er nýbúin að fá sína aðra lyfjameðferð og gengur vel, þrátt fyrir þráláta lungnabólgu sem vill ekki fara og verður tékkað betur á í fyrramálið með speglun. Hún lenti reyndar inni á hjartadeild í gær vegna þess að púlsinn rauk upp í lyfjagjöfinni en það jafnaði sig sem betur fer. Maður veit greinilega aldrei hverju maður á von á í þessari svaka meðferð. Það er auðvitað bara verið að dæla eitri beint í æð til að drepa krabbann, úff. Hún er sem sagt enn á spítalanum og fær fína þjónustu þar - meira að segja dömu sem kom og rakaði á henni það sem eftir var af hárinu í morgun. Svo núna er amma með "engin hár" og Vera og amman í stíl með buff - eins og Vera sagði í dag eftir heimsóknina. Vera vatnslitaði mynd handa ömmu sinni um helgina sem hét "sól og regnbogi" og myndin hangir nú uppi við sjúkrarúmið hennar.

Já, um að gera að bera sólina og sumarið bara inn í hjartað þegar þess fær ekki notið úti við, hvort sem maður er lasinn eða upptekinn við ómerkari hluti. Það gleður meira en margur sumardagurinn.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker