<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 27, 2007

Pakkinn 

Við lifum í pakka.
Og viljum lifa í pakka.
Öruggum pakka þar sem við pökkum okkur vel inn og þar sem er hlýtt og notalegt að vera. Sumir reyra umbúðunum fastar að en aðrir en öll eigum við okkar örugga comfort zone sem er besti staðurinn. Í pakkanum. Þar þarf ekki að taka áhættur, þar þarf ekki að hafa áhyggjur. Ég er ekki endilega að segja að lífið sé eitthvað einfaldur pakki, að hann dansi bara áfram í eilífri sælu og stuði, heldur frekar að við séum langflest öryggisfíklar og pökkum okkur þannig inn að áhrifin verði sem allra minnst þegar pakkinn hristist eða skekkist. Eðlilega.

Já, pakki. Pakki með draumahúsinu, draumabílnum, draumamálverkum, draumabollastelli, draumagarði, draumasturtuhaus, draumadjobbi og draumum um betri drauma. Við tölum um að vera "í pakkanum", með hús og bíl og skuldir. Skuldbindingar. Við komum okkur vel fyrir og látum okkur líða vel. Samt tölum við líka um að komast ekki "úr pakkanum" vegna þess að pakkinn er svo vel límdur og með alltof fallegri slaufu til að eyðileggja.

En hvað er þá hvers virði? Hvenær hættir pakkinn að þjóna okkur og verða okkar skjól og orka og hvenær erum við farin að lifa fyrir pakkann? Skilin eru óljós, enda við sjálf sem erum pakkinn.

Ég er í alveg ágætispakka. Slaufan er falleg og límið gott. En samt get ég ekki beðið með að taka pásu á pakkanum og gera eitthvað allt annað. Pása á pakkanum held ég að sé öllum hollt en kannski fæstir fá sig út í. Það er vinna, getur verið hættulegt, pakkinn gæti krumpast allverulega og hver veit nema hann verði aldrei samur eftir á. Það er erfitt að byggja upp nýjan pakka og droppa einhverju sem við höfum unnið ötullega að í jafnvel mörg ár.

Ég finn svo sterkt innra með mér að andinn minn byggist ekki bara á flottu parketi og nýju æðislegu Karen Millen gallabuxunum mínum, þótt ég geti ábyggilega seint neitað því að vera að stóru leyti peningalega drifin mannsekja í lífsgæðakapphlaupi með ykkur hinum. Og ég veit að ég hef gaman að því. Hin hliðin mín segir mér svo að pakkinn skipti minna máli en margt annað eins og að ferðast og upplifa nýja hamingju sem er ekki eingöngu hlutbundin heldur snýst líka um frelsið án pakka. Ég veit að lífið er jafnvægi milli þessara tveggja póla hjá flestum. En víst er að pakkinn heldur fast í.

Viðbrögð samferðafólks míns þegar ég segi þeim fréttirnar af þessu verkefni mínu lengst úti í heimi eru misjöfn. Sumir fá stresskast fyrir mína hönd og spyrja hvernig ég ætli að fara að þessu. Sumir verða svaka spenntir og fá abbókast eins og ein vinkonan orðaði það. Enn aðrir frjósa í andlitinu og segja "en æðislegt" en eru nú alls ekki vissir um að Nicaragúaískur pakki sé það eftirsóknarverður miðað við þann sem heima er. Aðrir gagnrýna í hljóði að ég sé virkilega að fara frá barni og manni - hversu lengi sem það verður. Mamma að fara frá barninu sínu er náttlega glæpur miðað við að pabbinn ferðist í burtu frá því. Að stinga af frá fárveikri móður sinni er líka merki um sturlun í huga einhverra. Ég finn það. Enginn þorir að segja: Ertu eitthvað vitlaus manneskja?! Enda almenn kurteisi meðal vina að sýna stuðning og samgleðjast. Tengdó hringdi fyrir nokkrum dögum og spurði hvort ég væri ennþá að fara. Ég svaraði játandi og hún dæsti í símann og sagðist bara hljóta vera orðin of gömul til að skilja svona lagað.

Við þurfum ekkert að skilja hvort annað til fulls, enda hver hugsun og upplifun einstök.

Í Nicaragua verður pakkinn alla vega pottþétt öðruvísi. Kærkomin tilbreyting. Ný lífsreynsla. Fullt af lærdómi og nýjum leik.
Og enginn vafi á því að ég komi heim með ferskar og skrautlegar umbúðir tilbaka utan um þann pakka sem áður var.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker