<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, maí 22, 2007

Sjaldgæfa ég 

Ég er sjaldgæf tegund. Ég er rauðhærð.
Það eru víst aðeins 2% mannfólks í heiminum rauðhært spáiði í því, og ég er hluti af þeim!

Það eru nú alls konar mýtur og sögur sem ganga um rauðhært fólk og ég er ekki frá því að VIÐ gerum ýmislegt til að viðhalda þeim sjálf. Það er sagt að maður sé svona og hinsegin vegna þess að maður sé rauðhærður og ég neita því ekki að ég hef ábyggilega notað rauða hárið einhvern tímann sem átyllu fyrir einhverju: Æi, hún getur ekkert gert að því að hún sé svona frek, hún er náttlega rauðhærð og að auki með freknur! Við rauðhærðar konur eigum samkvæmt nákvæmum sögusögnum að vera vergjarnari en aðrar konur, bestar í rúminu, fá meira kynlíf heldur en aðrar konur og þar með taldar ljóskur, frekar, ákveðnar og þrjóskar, tælandi og villtar. Rauðhærðar konur eru hærra launaðar og í betri stöðum á vinnumarkaði en eiga það til að vera svikular og undirförlar en þær eru sérstaklega oft svikakvendið í bíómyndum. Ég sá rannsókn á netinu um daginn sem sagði rauðhærðar konur þurfa minna deyfilyf í aðgerðum heldur en aðrar konur = hörkutól!

Það er samt svo skrýtið hvað rauðhærðir hafa verið teknir sérstaklega út og hvað fólk nennir virkilega að minnast á að viðkomandi hinn og þessi sé rauðhærður. T.d. eins og Eiki Hauks. Og ég sjálf. Eurovision snérist lítið um lagið en þeim mun meira um hárið á Eika: Big Red, Rauða Ljónið, Rauðhærði rokkarinn. Ljóskur eiga ljóskubrandara en vilja síður tala um og halda því á lofti að þær séu ljóskur og ég hef ekki enn heyrt eina mýtu um dökkhærðar konur. En jú við erum náttúrulega langflest sérlega stolt af rauða hárinu okkar og ég set meira að segja skol til að ýkja það! Ég var í félagi rauðhærðra á gamla vinnustaðnum mínum. Það félag var óvirkt með öllu en var meira til að sýna samstöðu og leyfa okkur að virkilega finna hvað þessi 2% af okkur eru frábær.

Mér hefur oft verið líkt við rauðhærðar megagellur, líklega bara út af hárlitnum, en auðvitað eru Gillian Anderson, Marcia Cross, Ginger Spice, Laura Ingalls, Anna í Grænuhlíð og Lína Langsokkur flottar viðlíkingar.

En maður getur nú samt fengið nóg. Undanfarið hafa verið voðalega mikið af fréttum um rauðhærða og rauðhærð samtök í fréttum og blöðum, vefsíður og blogg rauðhærðra spretta upp sem svaka nýjung og nú síðast í dag var opnuð ljósmyndasýning af rauðhærðu fólki. Æj, ég veit ekki. Það er alveg spurning um að setja meira ljóst í hárið í næsta hairdooi.

En vá, pæliði í því hvað ég er samt ógeðslega spes og sjaldgæf og hvað þið eruð heppin að þekkja mig - ég er rauðhærð – finnst m&m ekki gott og Lord of the Rings leiðinlegasta mynd í heimi.

Jebb, ég sagði sjaldgæf.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker