<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 02, 2007

Kapphlaupið mitt 

Ég þykist vita að þið séuð algjörlega angsíus að fá að vita hvort ég hafi komist í mark.
Svo here goes.

Fyrsta kapphlaupinu mínu er þá lokið. Þetta var í raun nokkuð merkileg upplifun, að taka þátt í svona hlaupi, sérstaklega þegar maður nær því að vera næstum því síðastur. Nei. ég er ekki sérlega vön því að vera léleg og síðust og svoleiðis og er að reyna að taka það í sátt að það sé jú aðalatriðið að taka þátt (je right!).

Ég mætti í upphitun, kokhraust og í nokkuð góðu stuði – miðað við Lundúnarþreytuna og sukkið og svínaríið. Skráði mig og það setti tóninn fyrir það sem koma skyldi: „Ha, í hvaða í þróttafélagi er ég? Nei, ég er ekki í neinu íþróttafélagi sko...bara svona sjálf“. Ég fékk afhent lukkunúmerið 463 á skrjáfandi pappír og nokkrar nælur með til að næla framan á mig. „Vá, þvílíkt pró, alveg eins og á ólympíuleikunum“, hugsaði ég, nokkuð ánægð með að vera mætt á staðinn. Svo tók upphitun við. Ég testaði hlaupaúrið sem ég hafði fengið lánað og sjúkket, það virkaði, án þess að ég vissi nú samt nokkuð hvaða áhrif það myndi hafa á hlaupið. Myndi ég hlaupa hraðar, hægar, flottara eða öðruvísi? Skokkaði svo tvo hringi á brautinni og snéri höndunum um leið, svona eins og maður gerði alltaf í upphitun í sundinu. Hugsaði samt um leið hvort að það væri glatað að hita þannig upp í hlaupinu. Sá engan annan gera það... Teygði svo aðeins og skannað hlaupahópinn í kringum mig. Jú, mér sýndist nú nokkrir vera þarna á svona á svipuðu róli og ég, þ.á.m. nokkrar eldri konur sem gætu nú varla hlaupið það hratt... En samt ekki. Hvar var hverfastemmingin - fólkið eins og ég og þú sem styrkir Olís og Fjölni eins og ég? Nei, það var augljóslega ekki í þessari 1. maí skrúðgöngu. Ég tók eftir því að ég var þokkalega í tízku, því í 38 manna hópnum var ein hlaupastelpa í nákvæmlega eins hlaupagalla og ég. Skærappelsínugulum og áberandi. Kúl. Eða ekki! Slyz. Ég vonaði bara að hún væri rosalega góð, þá bæði yrðum við nú ekki hlið við hlið og hugsanlega kannski gætu einhverjir ruglast á mér og henni og haldið að ég hefði komist svona fljótt í mark.

Þá tók stresspissið við. Ég fór og pissaði, reimaði þröngu hlaupasokkabuxurnar svo extra vel á mig og fór aftur út, tilbúin í slaginn. Talaði við hlaupafélagann sem peppaði mig upp og þurfti svo aftur að pissa. En ég sem var nýbúin að pissa – og það voru aðeins 6 mínútur í hlaup! Ég hentist aftur inn og upp og kreisti þessa nokkra stressdropa út. Reimaði sokkabuxurnar svo enn fastar en áður. Orðin svolítið sveitt í lófunum og ég fékk smá svona flashback frá því á startpallinum í gamla daga, hjartað vissi alveg að það var að fara að keppa. Á rásmarkinu leið mér vel, eða allt þar til ég sá fólk fara að klæða sig úr hlaupagallanum og standa í frosinni hlaupastellingu með grimman keppnissvipinn og hnefana kreppta, í hlýrabol og svona stuttum hlaupastuttbuxum einum fata. Og með svona útihlaupaskráp (eða var það ímyndun kannski?) Þá var ég alveg að hugsa hvort ég ætti bara að stinga af. En keppnismanneskjan ég ákvað að láta þetta ekki á mig fá, setti Gusgus bara í botn og joggaði af stað. Fann nú samt strax að það dugði lítið jogg á þessum bænum er ég sá hvernig strollan skokkaði létt á undan mér. Það var víst lítið annað að gera á þessum tímapunkti en að fara í sinn eigin heim, útiloka þessa pró hlaupara í smá stund og massa þetta bara my way.

Leiðin var fín, í Grafarvoginum, frekar bein en þó aðeins niður í móti til að byrja með. Það var hlaupið fram og tilbaka, svo síðasta spölinn á leiðinni til baka var leiðin nokkuð upp í mót og plús það að barningurinn við vindinn var þar þó nokkuð öflugur (og já, þetta er afsökun!). Ég var í ágætisfíling og var fyrst alltaf að kíkja á hlaupaúrið. Hvað skyldi ég vera að hlaupa hægt eða hratt eða töff núna? En ákvað svo að það skipti meira máli að missa ekki sjónar á næsta manni á undan mér til að villast ekki af leið! Já, áttavillta ég muniði.

Niðurstaðan varð sú að ég komst í mark og leið bara nokkuð vel. Fékk gula Olísbolinn og meira að segja súkkulaði líka. Ég náði markmiðinu mínu, sem var að vera ekki síðust og að fara undir 55 mínútum. Núna á ég sem sagt prófessjonal skráðan 10 km hlaupatíma upp á 53.34 mín. og er nokkuð stolt af því. Bara að hafa þorað. Og var nr. 35 af 37 keppendum svo ég var ÞRIÐJA síðust, en ekki síðust. Þeir sem á eftir mér komu voru þó nokkuð á eftir mér, strákur á mínum aldri sem var greinilega nýbyrjaður að hlaupa eins og ég og hinn var sextugur bumbukall, algjör hetja. Eins og ég. Því þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta allt saman meira um að öðlast nýja reynslu, upplifa og prófa, tjallensa sig og setja sér markmið. Og ná þeim svo út frá sínum eigin forsendum.

Icelandair hlaupið er á morgun – og ég get ekki beðið!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker