<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, maí 20, 2007

Hálft í höfn 

Hlaupasaga helgarinnar er að mestu kjánaleg en líka pínu hetjuleg. Og ef þið fattið það ekki við lesturinn þá ætla ég bara að segja ykkur það strax að ÉG er sko hetjan!
Kjánalegar hetjur eru víst inn í dag.

Það var brunað á Akranes í morgunsárið í gær, með það fyrir augum að hlaupa 21,1 km í logni og sól eins og spáð var. Á leiðinni hugsaði ég um það hvort ég væri virkilega biluð að vera að keyra í klukkutíma til að fá að hlaupa, en hei, ég var löngu búin að ákveða þetta og þegar mín ákveður eitthvað stendur það. Það var svona aaaaðeins rætt um veðrið á leiðinni og þá aðallega metra á sekúndu, en okkur sýndist svona á fánum hér og þar um bæinn að það væru nú örugglega meira en 6 m/sek. Eins og spáð hafði verið. Þegar rokið svo tók Volvóinn næstum því út af veginum eftir að komið var upp úr Hvalfirðinum vorum við svo alveg viss. Mælirinn sýndi 7 stig á celsíus og 15 metra á sekúndu í roki. Púff, þar var strax úr mér (allur) smá vindur hehe.

Við renndum í hlaðið á Skaganum og hlaupaúrið mitt byrjaði á því að sýna 0 ours of battery sem þýddi jú að það var batteríslaust á ögurstundu! Shit, hvernig gæti ég hlaupið þetta án úrsins, gjörsamlega orðin háð því strax :S Og ég sem hlóð það í kvöldið áður... en áts, gleymdi svo að slökkva á því yfir nóttina. Já, ég er víst ekki meira pró en það. Mér sýndist vera 25.000 metrar á sekúndu úti og ég kveið fyrir því óvænta aukaerfiði, en varð aftur á móti svaka glöð þegar ég sá eldgamla bumbukallinn frá því í Grafarvogshlaupinu skrá sig líka í hálft. Ég meina, ég sem var nú heilum 3 mínútum á undan honum í 10 km þar! Ég varð glöð á ný því með gamla bumbukallinn um borð minnkuðu líkurnar all verulega á því að vera aaaalveg síðust.

Hlaupið var erfitt. Ég hljóp og hljóp en einhvern veginn hljópst ekki neitt sérlega hratt þrátt fyrir erfiðið. Mér leið svolítið eins og ég væri sífellt að boxa út í vindinn, þreytandi vindhögg þar sem maður fær engin stig. Baráttan við vindinn varð sem sagt að aðalatriði á leiðinni og þegar þungaflutningabílarnir á þjóðveginum brunuðu framhjá á okkur á kafla leiðarinnar leið mér eins og ég hefði fokið nokkra metra afturábak! Viggi valhoppaði með mér fyrstu 15 km. Tók þetta að mér fannst alltof létt á skokkinu, svona miðað við vel sötraða Mojito og bjóra á edrútímabilinu mínu! Hann var alltaf að peppa mig með einhverjum bröndurum sem ég hafði ekki orku til að hlæja að og svo tók hann svona upphitunarhopp og æfingar inn á milli á leiðinni því honum fannst erfitt að hlaupa svona hægt. Segi það nú samt að svona hérar eru algjörlega nauðsynlegir í baráttunni. Svo eftir 15 km gaf hann mér merki um að hann ætlaði aðeins að fara að taka á því og kappinn gjörsamlega hvarf mér sjónum... og ég var alein í rokinu, algjörlega að kálast af verkjum í annari mjöðminni og gamli bumbukallinn farinn að nálgast mig ískyggilega mikið... Búhú aumingja ég.

Á þessum tímapunkti var heilinn á mér farinn að hugsa gjörsamlega sjálfstætt um alls kyns undankomuleiðir og svona á milli 11 og 16 km var ég virkilega að hugsa um að henda mér út í skurð og láta mig hverfa. Mig langaði mest að saga af mér vinstri mjöðm og hlaupa einfætt. Úfinn sjórinn virkaði meira að segja svalandi og girnileg undankomuleið á þessari stundu og þegar ég reyndi að hugsa um eitthvað annað var það t.d. hvort það væri ekki örugglega leigubílastöð á Akranesi, hvort leigubíll myndi koma að sækja mig úr Reykjavík og hvernig ég ætti að beita mér trúverðuglega við að húkka far í bæinn. Svo var tilhugsunin um músina mína í sínu fyrsta opinbera giggi (jú fyrir utan Youtube giggin fyrir alheiminn) á Hjalla heldur ekki alveg að hjálpa mér að fara ekki að grenja.

Svo þegar gamli bumbukallinn tók framúr mér í 18 km var ég alveg ákveðin í því að gera þetta aldrei aftur! Ég elti gamla samt og þakkaði honum í hljóði fyrir að draga mig áfram í mark. Ég get svo ekki lýst gleði minni þegar ég sá eina konu skríða í mark korteri á eftir mér – vá og jibbí, ég var þá ekki síðust! Þá var þetta allt í einu að skemmtilegasta hlaupi sem ég hef hlaupið.

Að öllum ýkjum slepptum var þetta rosalega gaman og ég vona að mjöðmin hagi sér til að ég geti kannski einhvern tímann endurtekið leikinn. Og kannski bætt mig ef það verður einhvern tímann logn á skerinu.

Já, hálft er í höfn og ég get strikað það út af listanum.
Ég náði markmiðinu mínu sem var að fara undir 2 tímum.
1.59.34 er sko tala fyrir ekta sigurvegara (og reyndar 1.55.42 líka).

Ég er í sæmilegum henglum eftir hlaupið í gær en finn aftur á móti engin eftirköst eftir hvítvínsþambið í grillpartýi sigurvegaranna í gær – hmmm... getur verið að þetta sé tákn?

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker