<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Tónleikanördinn ég 

Ég fer ekki svo oft á tónleika. Ég er ekki músíkgúru dauðans sem þefa uppi alla tónleika og veit allt um marga tónlistina. Hangi ekki í Skífunni eða á netinu að tékka á tónlist. Tónlistarsmekkurinn er breiður en ekki brennandi. Ég þefa ekki auðveldlega uppi nýja tónlist og hún kemur ekki til mín sjálfkrafa, nema í gegnum marga vinina sem ég reyni að smitast reglulega af. Tékka á hinu og þessu. Ég vil sem sagt vera mötuð takk. Bring it on. Kannski er það líka vegna frumkvæðisskortsins míns tónlistarlega séð sem ég fatta ekki að fara á tónleika sem eru í vændum. Það fer oft framhjá mér þegar listamenn leggja leið sína hingað og ég er oft of sein að næla mér í miða þegar hvötin kemur vanalega allt í einu daginn áður - þegar allir eru að tala um að þeir séu að fara á tónleika. Ég fer samt af og til, næ að smitast af vinum og félögum í tæka tíð, umfjöllunum í blöðunum og kaupi mér miða. Og elska það í hvert sinn sem ég fer. Og hugsa alltaf með mér af hverju ég fari ekki oftar. Ok, tónleikar eru jú ekki ókeypis en ef maður hugsar út í upplifunina sem maður fær fyrir peninginn þá verður virðið ómælt og peningalyktin af þessu hverfur jafn skjótt...

Ég fór sem sagt á Sykurmolatónleikana á föstudagskvöldið. Og elskaði það. Ég kann nú illa að vera spekilegur tónlistar- eða tónleikagagnrýnandi en get sagt að þetta fór alveg fram úr væntingum mínum. Ég hef ekki hlustað neitt sérstaklega á Sykurmolana um ævina, kannski helst þegar ég var 15-16 ára, en það skipti engu, ég skemmti mér hið besta.

Mér fannst þau svolítið meðvituð fyrstu lögin og Björk rýndi í textann og var þvílíkt að vanda sig en svo losnaði um og þetta flæddi eins og það átti að gera. Björk var unaður að hlusta á. Manneskjan er yfirnáttúruleg og hún söng svo veeeeel jesús minn. Og svo krúttleg í silfurlitaða speiskjólnum sínum á táslunum. Einar fór pínku í taugarnar á mér og skoppið í honum út um allt var alveg í það mesta en ég bjóst nú svo sem við því. Fílaði hvað hann talaði ítrekað illa um Árna Johnsen svo hann skoraði þar í staðinn. Luftgítar í lokin var óvænt og lætur minninguna lifa lengur enda frábært skemmtiatriði. - Ekki góð rýni hjá mér hehe?!

Ég er jafnvel að spá í að hafa eitt af áramótaheitunum mínum í ár að fara á fleiri tónleika. Og finna markvissar leiðir til að þefa þá uppi og láta einhvern pína mig til að kaupa mér miða. Því upplifunin, meira að segja fyrir tónleikanördinn mig, er unaðsleg.

Svo - tónleikar anyone?

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker