<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Sunnudagssveiflan 

Eftir uppsveiflu föstudagskvöldins á tónleikunum kom ágæt niðursveifla á laugardaginn, því það var svokallaður "taka-til-í-helvítis-geymslunni-dagur". Daman var sett í pössun og allt því það var svo svakalega komið að því að taka til í helv... geymslunni að það hálfa væri nóg. Ég var hætt að komast í þvottavélina og maður átti á hættu á að fá kassa eða verkfæri í hausinn hvenær sem er niðri í geymslu við það saklausa athæfi að setja í þvottavél. Og ég bara ákvað að vilja ekki lengur búa með drasli og í lífshættulegum aðstæðum og því var þetta massað á laugardaginn. Vera fór þess í stað með ömmu Gunnu á röltið sem er alltaf sport.

Uppsveiflan og sælan eftir niðursveiflutiltektina var þó þess virði en það er eins og þungu fargi sé af mér létt. Ég bý í húsi með fínni geymslu ahhhh. Call me crazy en ég er með nett tiltektaræði. Ég vil hafa fínt í kringum mig og sem minnstan skít takk fyrir. Þegar ég veit af skúffum og skápum sem eru í ruglinu og þarf að taka til í þá hlakka ég næstum því til verkefnins því það verður aldrei allt alveg hreint og fínt nema skúffur og skápar séu það líka sko. Og hvað þá heil geymsla jiminneini. En ekki misskilja mig, ég hef hvorki þrifið ofninn né ísskápinn eftir að ég flutti inn og þið ættuð að sjá hnífapara-skæra-röra-drasl-skúffu dauðans í eldhúsinu og skenkinn í stofunni (nei glætan, það má enginn nema ÉG!). Geymsluverkefnið óx mér í augum í tæpt ár eða síðan ég flutti í höllina. Og þegar fólk kíkti á slotið og spurði um neðri hæðina reyndi ég lymskulega að eyða því umræðuefni út... en núna skal ég bjóða öllum þeim sem kíkja í heimsókn stolt niður í geymslu. Áhugavert.

Að taka til í geymslu er svolítil sálartiltekt um leið. Svona svokölluð sálarsveifla (=upp og niður og allt í kross!) Ég fann gamla barbídótið mitt og hlakkaði til að gefa veru það þegar að því kemur. Ég skyggndist þarna nokkur ár aftur í tímann í líf mitt en ég sá m.a. eldgamlar vel skreyttar ljóðabækur og fleiri yngri ljóðabækur frá gelgjuskeiðinu og fjölluðu öll ljóðin mín um harm heimsins og vandamál og viðbjóð. Ég var greinilega djúpur unglingur - aðeins í ruglinu. Ég fann einnig gömul sendibréf frá vinkonum og gömlum kærustum (ha, á Erla gamlan kærasta?!!! hahahahah) úrklippur, skólablöð, svo ekki sé minnst á verðlaunapeningaskjöldinn minn sem ég man að ég dundaði mér dagana langa við að næla vel straujuð böndin á dýrgripunum á bláan verðlaunaskjöld. Og svo auðvitað dót frá látnum ömmum og öfum. Riddarasögurnar hans afa Skarpa, hekluðu dúkana hennar ömmu Völu og myndir og dúka frá ömmu Sillu. Meira að segja eldgamlar Vikur frá afa Axel, en fyrir þá sem ekki vita var afi Axel mikill frumkvöðull og stofnaði m.a. tímaritið Vikuna á sínum tíma.

Ég fékk samt hendi-áráttu aldarinnar í tiltektinni og henti tveimur sendibílum af drazli og dóti sem ég er hætt að sjá tilgang með. Ég passaði samt að henda ekki hluta af sálinni minni og geymdi allar skrýtnu minningarnar oní kassa á góðum stað.

Snjórinn frískaði svo heldur betur upp á sálartetrið í dag og er hægt að tala um megasnjóuppsveiflu þar. Vera fílaði snjóinn, næstum því jafn vel og mamman en auk þess að búa til engla út um allan garð fékk hún fiðring í tærnar að komast á snjóbretti, en það eru einmitt plön um eina slíka útlandaferð í vetur.

Hér eru nokkrar snjóugar myndir fyrir gesti og gangandi til að enda þessa sveiflu vel upp.


Tvær soldið hressar með snjóinn (samt er eins og mamman sé aðeins hressari hehe - enda með maskara út um allt andlit)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker