<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 13, 2006

Mánudagseffortið 

Ég hef svolítið skrifað um mánudaga hér á síðunni. Þessi mánudagur er þannig mánudagur. Maður þarf bara aðeins að tjá sig. Mánudagar eru spes, og ég bæði elska þá og hata. Þeir eru tjallens og ég elska tjallens. Svo hata ég hversu þreyttir þeir eru, þreytandi og margir þreytulegir í kringum mann. Elska - hata, þið þekkið þetta. Sjálf er ég oft þreytt eftir helgina enda helgarnar mínar yfirleitt yfirbókaðar, svona eins og mér finnst best að hafa þær. En þá þarf ég líka á öllum kraftinum og aukakraftinum að halda á mánudögum sem aldrei fyrr í vinnunni til að starta vikunni og verkefnunum með stæl. Setja tóninn fyrir restina af vikunni. Því ef maður byrjar illa á mánudögum er einhvern veginn eins og restin eigi ekki eins góðan sjéns. Vikan mín verður þá alls ekki eins effektíf og annars. Svo mánudagar setja bæði pressu og kröfur á mann. Og ef manni tekst vel á mánudögum þá flýtur þriðjudagur eins og bráðið smjör í kjölfarið. Afsakið, en á mánudögum finnur maður bara enga flottari samlíkingu en bráðið smjör. Glatað, ég veit.

Þegar ég hugsa um það þá geri ég ýmislegt á mánudögum til að koma mér af stað. Ég efa það ekki að hver á sína mánudagsaðferð þegar hann fer að spá í það. Sumt meðvitað og annað ekki. Þegar ég hugsa um það er ég að massa þessa mánudaga ágætlega!

Sem dæmi um mánudagsmössun fer ég til dæmis yfirleitt í skæra liti á mánudagsmorgnum. Í morgun fór ég til dæmis í hressasta buxnakjólinn minn, rauður og munstraður og ég leit út eins og jólaskreytt endurskinsmerki (svoldið mikið endurskin í hárinu ennþá eftir glænýju haustlaufshennalitunina). Merki um kraft sem svo smitast á heilann á manni og verður alvöru. Já, og svo raula ég líka O what a beautiful morning og fæ mér oft kókópuffs í morgunmat til að hressa mig við andlega. Sykurinn gerir sitt líka býst ég við. Ég fæ mér sko hafragraut alla aðra daga. Svo er ég meðvitað extra dugleg í ræktinni - 5,5 km í dag úllalla - var að afeitra mig eftir helgarsvamlið. Og svo elda ég eiginlega alltaf fisk í mánudagskvöldmatinn - steinbítur í tandorí í kvöld. Ábyggilega ómeðvitað til að stokka upp próteini og fá holla fiskifitu í kroppinn sem á að gera mann bjartsýnan. Og þriðjudagurinn rennur upp eins og bráðið smjör... :S

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker