<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Köllun kvöldsins 

Sko! Köllun minni um fleiri tónleika var svarað í dag! Af fyrrverandi vinnufélaga sem lætur sér augljóslega annt um mig og tónlistarsmekk minn og upplifun. Ég fékk fullt af lögum með Joanna Newsom í pósthólfið mitt og er að hlusta núna. Vissi sko ekkert hver fröken Jóhanna var áður en þannig á þetta einmitt að vera. Mata mig takk. Og ég fíla þetta bara vel við fyrstu hlustun. Rólegt og þægilegt en samt ævintýralegt og öðruvísi. Harpan hennar náttúrulega yfirnáttúrulega flott. Sko rýnina! Ég ætti kannski að leggja fyrir mig. En ég hef sem sagt ákveðið að fíla hana í tætlur enda eru víst áform um að hún komi til landsins og haldi aðra tónleika sem mér skal takast að muna að kaupa miða á.

Annars fór kvöldið í kvöld í að svara annarri mikilvægri köllun. Snjóbrettakölluninni. Við hittumst nokkur í höllinni til að skipuleggja vetrarfrí í Alpana í febrúar. Ég eldaði grjónagraut oní liðið í stórum potti og stemmningin var í hámarki (sérstaklega þegar Vera var að lumbra á litlu krökkunum áts!) Stefnan er tekin með 10 manna hópi, barnlaus að sjálfsögðu, á Les Arcs í frönsku Ölpunum. Þið vitið Chalet með saunu og arineldi, frönsku rauðvíni og ostum og auðvitað púðursnjó aldarinnar og off piste brekkum dauðans. Ég þarf að kaupa mér nýja brettaskó, mínir eru orðnir akkúrat 10 ára...

Já, byrjum á byrjuninni. Ég byrjaði fyrst á brettinu þegar ég var að vinna í Arosa í Sviss veturinn 1997. Síðan hefur maður verið misduglegur að stunda sportið, aðallega vegna snjóleysis, en þó hef ég heimsótt Alpana nokkrum sinnum síðan Arosa. Og ekki má gleyma Akureyri sem á góðum degi jafnast alveg á við útlönd, Sigló, Skálafell og Bláfjöllin blágráu. Ég er nokkuð brött á brettinu og elska hraðann, leikinn og frelsið sem fylgir íþróttinni þótt ég muni aldrei kunna að taka þrísixtí. Enda það varla markmiðið úr þessu hjá þrítugri kjéddlingunni. Náttúrufílingurinn í sportinu er svo mikill og það að sigla niður Alpana er engu líkt.

Já, tónleikar og alparnir kalla á mig...HÁTT!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker