<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

EIN mynd 


Þetta er fyrir alla Arsenal og Liverpool fótboltadýrkendur síðunnar sem lesa.

Ég veit þeir eru nokkrir. Jú, jú, karlmenn líklegast. Sem myndu kannski aldrei viðurkenna að þeir væru að lesa, en lesa samt. Viggi sem sagt fór á þennan leik um helgina í London, þar sem Arsenal burstaði Liverpool og á heilli helgi tók hann EINA MYND - bara EINA og það er þessi hér! Minn maður ekkert að ofgera hlutunum. Um að gera að spara digitalinn. En þessi eina mynd er greinilega mjög lýsandi fyrir ferðina. Fyrir utan að horfa live á þennan víst skemmtilega leik þá hittu þeir liðið á skemmtistað um kvöldið og tóku trúnó með þeim. Ok, skil kannski vel að hann hafi ekki viljað festa allt ruglið í hópnum á filmu fyrir mig og ég er ekki frá því að þessi eina mynd dugi mér bara, þótt ég myndi nú seint kallast fótboltaaðdáandi.

Einu sinni var ég samt næstum því orðin fótboltaaðdáandi. Eiginlega alveg óvart. Í gömlu vinnunni minni var mikið rætt um fótbolta og töluðu vinnufélagarnir eins og þeir væru hluti af Liverpool eða Arsenal eða hvaða liði sem er. "Við vorum svo góðir", "Hvað voruð þið að spá með að selja x?"! Híandi á hvorn annan yfir frammistöðu einhverra fótboltakalla inni í sjónvarpinu. Ég var farin að fylgjast vel með, ómeðvitað, heyrði umræðurnar og þekkti meira að segja orðið nokkra leikmenn. Gjóaði augunum jafnvel á einn og einn leik þegar Viggi var að horfa til að skilja fótboltatungumál félaganna. Hafði lúmskt gaman að þessum ímyndunarheimi þeirra. Sem þeir viðurkenna samt án efa aldrei að sé ímyndun heldur blákaldur og mikilvægur raunveruleiki. Þetta er efni í mannfræðirannsókn dauðans.

En nú er öldin önnur. Ég er dottin úr þeirri umræðu og í aðra aðeins stelpulegri þar sem ég vinn ekki lengur náið með neinum fótboltadýrkendum.

En alla vega, eigum við ekki bara að segja að þessi mynd sé fyrir félagana. Sem ég sakna. Og ég viðurkenni það sem sagt hér með að ég hafði gaman að þessu fyndna fótboltahjali þeirra, þótt ég muni aldrei skilja þetta (enda þarf maður varla að skilja allt sem maður hefur gaman að...eða hvað...?)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker