<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, ágúst 11, 2006

Talandi VERA á koppnum 

Vera byrjaði að pissa í koppinn þegar við vorum úti í Stokkhólmi, þá rétt að verða tveggja ára. Hún var að herma eftir Skarpa frænda og átti auðvelt með að segja til. Eitthvað sem ég fattaði ekki fyrr en hún byrjaði að apa eftir stóra frænda (hann er sko 2 vikum eldri!).
Svo núna fer hún bleyjulaus til dagmammanna og tilkynnir mér ætíð hátt og snjallt að hún sé búin að pissa í bleyjuna ef hún er með bleyju, til dæmis eftir lúr. Eins segir hún mér frá hverju einasta prumpi sem kemur og sest oft á koppinn til að prumpa, tilkynnir mér það svo voða stolt og vill fá hrós. Sæta múslan!

Vá, þetta er sko fullorðinsmerki. Daman að hætta á bleyju, bara trúi því varla.
Svo er hún svakalega dugleg að tala og talar mikið. Kann ótrúlegustu orð eins og kóngulóarvefur, sláttuvél og dreyma. Eitthvað sem ég hef ekki verið að kenna henni eða tekið eftir að við séum sérstaklega að hugsa um. En hún veit og kann nú meira en maður heldur. Hún syngur mjög mikið með mér og kann að syngja nokkur lög alveg sjálf. Það er alveg sætt og stundum vandar hún sig svo að syngja tóninn að litli munnurinn herpist saman í hring, augun hallast aftur og nasavængirnir þenjast út. Svo er bara að sjá með tímanum hvort daman haldi lagi!

Vera er einnig loks orðin VERA, með ekta eRRi og allt. Fyrst var hún Lala, svo Lella, svo Nenna, þá Jeijja og svo Vea í nokkra daga áður en hún verð alveg VERA rétt tæpri viku eftir 2 ára afmælið sitt. Það kom bara allt í einu án nokkurrar heimaæfingar. Frændi hennar spurði hana hvað hún héti og hún hugsaði sig um í stutta stund áður en hún sagði sposk: Vea - sem varð svo VeRa nokkrum dögum síðar. Gaman! Svo segir hún nú iðulega "jább og jahá", í stað já, og "nauts eða nehei" í stað nei sem er óneitanlega soldið fyndið.

Hér koma nokkur nýleg gullkorn sem mig langar að skrá niður áður en ég gleymi þeim:

Ég var að lesa bók fyrir Veru um Emmu. Emma datt úr trénu eins og allir vita og ég er eitthvað að reyna að einfalda söguna svo að Vera skilji hana betur og segi að Emma hafi fengið ó ó á hausinn. Þá segir Vera: Nei mamma, Emma meiddi sig og ó ó á ennið". Já, um að gera að hafa þetta nákvæmt...

Vera er nýbyrjuð að borða epli og vill helst bíta beint í eplið. Hún tók bita um daginn, horfði svo rannsakandi augum á eplið, benti á miðjuna á því þar sem pinninn stendur upp úr og sagði hissa: "Mamma, gat á eplinu!"

Mamman var að taka sjálfsmynd af sjálfri sér og Veru og sýndi henni myndina. Þá sagði Vera: "Mamma og Vera vinkonur" oooooo... þetta bræddi alveg hjartað.

Vera fór í sund með pabba sínum og benti á mann í sturtunni og sagði: "Pabbi, thessi majur líka alsberulingur".

Vera hugsar afar vel um dúkkurnar sínar. Þvílíkir mömmutaktar þar á bænum. Hún er s.s. löngu byrjuð í mömmó, pakkar dúkkunum vel inn, sussar þær í svefn og segir svo við mig:"sssssss mamma, dukka sofandi". Dúkka er svo ennþá vaknAÐUR...

Vera er byrjuð að búa til sína eigin brandara, eða reyna að vera fyndin. Við vorum á leið í afmæli og ég sagði henni að afmælisbarnið hún Tinna væri 6 ára. Þá sagði vera lúmsk á svipin: "Mamma, Vera sjö ára - neeeeeiiits, Vera grínast - Vera pata mammu!" heheheheheheheeh - hún er sem sagt húmoristi líka!


sæta músin a koppnum

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker