<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Sumarið er tíminn 

Ég kom í fyrsta sinn til Stykkishólms um helgina og líkaði vel. Eins æðislegt og Snæfellsnesið er er þetta með eindæmum krúttlegur bær. Eða þorp. Það er alveg spurning um að ná sér í eitt stykki sumarhús þarna þegar árin eru farin að færast yfir. Gamalt hús sem smiðurinn minn getur dúllað sér við að gera upp. Svo sé ég um að setja villt blóm í vasa og baka pæ. Svo myndi maður eiga ágætan jeppa í innkeyrslunni til að leika sér á og vélsleða í skúrnum til að krúsa á jöklinum. Og auðvitað nýjustu brettagræjurnar líka. Og ekki má gleyma mótorkrosshjólum til að fá adrenalínið af stað svona á elliárum. Svo væri ég búin að fara á ljósmyndanámskeið og ætti svakalega fína myndavél og léki mér að því í frístundum að taka myndir af brjálæðislega flottri náttúrunni á nesinu.

En ókey, það eru nokkurhundruðár í þetta. Ég upplifði þó eitthvað svipað þessu um helgina þar sem við gistum í krúttlegu húsi, Volvó-fjölskyldujeppinn okkar stóð sig afar vel á þjóðveginum, ég tók fullt af myndum á hálfbiluðu myndavélina mína, týndi blóm í krans fyrir Veruna, fór upp á jökul og lék mér á brettinu. Fékk þvílíka náttúruinnspítingu sem ég lifi lengi á. Oh, það er svo góð tilfinning. Og fiðringurinn í maganum þegar maður þeysist niður jökulinn á brettinu... íha!

En sá einhver brettagelluna Erlu-perlu í blaðinu um helgina? sjúff, maður er jú ekki frægur fyrir ekki neitt - nema að hafa mætt á tónleika á Nasa fyrir helgina síðustu og smælað framaní sæta ljósmyndarann. Ég fer nú ekki oft á tónleika (af hverju leyfir maður sér það ekki oftar og borðar bara spagettí með tómatsósu í heila viku í staðinn eða eitthvað (ha, kaupa einu skópari minna?? ... eh, neeeeiii....!) en er nú nýbúin með tvö stykki. Aðrir voru hinir æðislegustu tónleikar með Emiliönu Torrini og Belle & Sebastian og svo skellti öll fjölskyldan sér ásamt vinum og öðrum 40 þúsund borgarbúum á SigurRós á Miklatúni. Það var þvílíkt kósí. Íslenskt pikknikk seint á sunnudagskvöldi í hita og næstumþvísól, hlustandi á seiðandi söng sem lætur mann líða eins og í öðrum heimi.

En ég fíla samt alvöruheiminn minn núna. Svo mikið skemmtilegt búið að eiga sér stað. Og enn allt að gerast, sumarið er finnst mér á hápunkti og margt framundan eins og afmæli nr. 2 hjá fröken Veru Víglunds á morgun, ferð norður um verzló, gæsun, brúðkaup, fjallganga (ég skal!), annað partý, annað brúðkaup og annað partý...!

Sumarið er svo sannarlega tíminn þegar hjartað verður grænt og þegar mér líður best.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker