<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júní 03, 2006

Svona dagar 

Það er meðal annars á svona dögum sem ég sakna ömmu Sillu. Þegar sólin skín sem mest og heitt er í veðri á frídegi. Á svona degi myndi ég áður hafa fengið mér göngutúr til ömmu, til að sitja með henni úti á palli og spjalla við hana um ekkert sérstakt. Skruðningar í Gufunni myndu heyrast frá illa stilltu útvarpinu og lyktin af nýslegnu grasi myndi fylla loftið. Amma var alltaf að slá grasið og róta í beðunum sínum og hún gerði það af áhuga og nautn. Sumir sögðu garðinn hennar alltof stóran fyrir gamla konu eins og hana, en hún fullyrti að hún myndi ganga af göflunum af eirðarleysi hefði hún ekki garðinn sinn. Hún var iðulega í gatslitnum alltof þröngum stuttbuxum frá 1950 og á haldaranum einum að ofan við vinnuna. Þegar við kæmum myndi hún svo hræra í vöflur og þýða heimabakaðar kotasælubollur úr frystinum og við myndum maula þetta í sólinni. Amma myndi prjóna smá inn á milli eða sauma út harðangur og klaustur í dúk sem ætlaður væri einhverjum sérstökum. Hún myndi snúllast með Veru og dást að henni, hún væri svo æðislega mikið þetta og hitt.

Við Vera fórum í göngutúr til ömmu í dag upp í kirkjugarð. Þar voru blómin hennar og annarra í fullum skrúða og sólin skein.

Þótt Það vaxi ennþá bara fíflar í garðinum mínum fæ ég alltaf smá svona ömmu-Sillutilfinningu þegar ég er úti í garði á svona dögum. Og ég er ekki frá því að ég sé með garðagenið hennar í mér að einhverju leyti. Mér finnst garðurinn minn alla vega æðislegur. Alveg eins og ömmu.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker