<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júní 01, 2006

Fyrsti dagurinn 

Í dag var allt nýtt.
Það eru svo margar pælingar sem fylgir því að byrja á nýjum vinnustað, var alveg búin að gleyma tilfinningunni. Allt frá því að vandræðast með hvar maður á að leggja bílnum eða í hvernig fötum er vænlegast að mæta í fyrsta daginn. Það tengist kannski því entransi sem maður vill vera með fyrsta daginn. Er það Erla stay low eða Erla brosmilda, Erla alvarlega eða bara Erla-Perla. Hvernig er ég ég sjálf með ókunnugu fólki? Svört föt hentuðu best í dag. Svört formleg (en alveg kjúl samt sko) buxnadragt, en ég verð nú samt að viðurkenna að ég gat ekki sleppt því að fara í túrkíslitaðan fiðrildabol innanundir. Hann sást samt ekki svo mikið.

Ég fékk glænýja fartölvu, síma og meira að segja skrifborðsstóllinn minn var pakkaður inn í plast, svo glænýr var hann. Sætt. Ég var á kynningarfundi um fyrirtækið og framtíðarverkefnin mín í allan dag og er ekki alveg að átta mig á því hversu lítið ég meðtók. Ég heilsaði 200 manns og man ekki hvað neinn heitir og kynnti mig meðal annars fyrir einhverjum kúnna frá Orkuveitunni sem horfði furðulostinn á mig. Ég tók lyftuna á milli 1. og 2. hæðar í sífellu af því ég fann ekki stigann og sleppti því að pissa því ég vissi að ég myndi ekki rata aftur tilbaka af klóinu.

En þetta lofar góðu og ég er spennt. Verkefnin bíða og ég fer út að borða annað kvöld með nýju vinnufélögunum. Spurning um að fara hreinlega bara í galló strax á morgun við fiðrildabolinn.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker