<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, mars 21, 2006

21 mars 1923 

Amma Silla hefði átt afmæli í dag.
Hún átti sérstakan stað í hjartanu á mér.
Fyrsta bloggið mitt var um ömmu Sillu. Ég sakna hennar óendanlega mikið ennþá.
Ég man að í fyrra á þessum degi þá sátum við saman á kaffihúsi, með mömmu og Veru, en það var hennar fyrsta alvöru kaffihúsaferð, á 82 ára afmælisdaginn sinn. Hún gortaði sig af Veru undrabarnabarnabarni sínu við fólkið á næsta borði, borðaði pecanpæ og drakk heitt súkkulaði með rjóma og fannst lífið yndislegt.
Svo veiktist hún skömmu síðar og dó í kjölfarið. Svæsin lungnabólga kennd við hermannaveiki dró hana óvænt og ósanngjarnt til dauða.

Ég man síðustu heimsóknina mína og Veru til hennar á spítalann þegar hún var enn með meðvitund. Hún var svo slöpp en reisti sig upp í rúminu þegar hún sá okkur og fór strax að tala og leika við Veru. Þær léku high five. Vera klappaði á lófann á ömmu og amma á lófann á Veru. Í þó nokkra stund. Þetta var móment sem ég gleymi aldrei.
Mér finnst svo leiðinlegt að amma muni aldrei sjá Veru stækka. Að hún geti aldei meir gortað sig af því hvað hún er dugleg. Ekki það, ætli hún geri það ekki bara samt hjá jesú, það væri hennar stíll.

Ég fór á leiðið hennar áðan og það var frosið og snjóugt, en með fullt af fallegum afmælisblómum á. Þrátt fyrir að amma hafi verið mesta blómakerling sem ég þekki sendi ég henni bara fingurkoss.
Ekki niður í jörðina heldur upp til himna.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker