<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, nóvember 25, 2005

Vera 16 mánaða! 

Vera litla músin mín er orðin 16 mánaða! Það þýðir að það vantar 2 mánuði í 1 1/2 árs aldurinn fyrir þá sem ekki telja í mánuðum eins og mömmur.

Vera er orðin svo klár og sniðug. Hún er búin að bæta við orðaforðann og kann nú - fyrir utan mamma, pabbi (babba), allt búið (ahhbú), voffi (vovva), bra bra (baa baa), labba, Lala (stubbur), húfa (úa), súpa (úpa), takk (taaa), datt og nammnamm - að kveðja með því að segja bæ, bæ (baeee, baeeee), kann að segja hvað ljónið segir (aaaouuuuuww, dudda, nei, vá! (notar það mikið!) og Lella (Vera). Já, daman er búin að uppgötva að hún sé líka mikilvæg eins og mamman og pabbinn og hefur gaman af því að benda á mömmu og segja mamma, bendir svo á pabbann og segir babba og svo á sjálfa sig og segir Lella. Litla fjölskyldan. Það bætist alltaf eitthvað við sem er svo skemmtilegt.

Hún er mikið að taka eftir flugvélum sem hún heyrir í og bendir á þær, og eins tunglinu á kvöldin. Finnst það afar merkilegt. Ljós eru líka merkileg. Hún er farin að geta horft á fleira í sjónvarpinu en BARA Stubbana, Latibær virkar oft og einnig aðrar teiknimyndir sem eru sýndar fyrir fréttir. Hún er farin að hafa gaman af því að raða hlutum ofan á hvorn annan í stað bara að setja ofan í.

Vera verður nú að fá að henda bleyjunni sinni sjálf í ruslið og vill fá að bursta tennurnar í mömmunni á meðan hún burstar í henni. Hún gjörsamlega elskar að lesa bækur og það er í raun eini tíminn sem hún slakar á yfir daginn. Jú, líka þegar hún sest í fangið á mér og bendir á tölvuna og vill fá að skoða myndir af sjálfri sér! Þá hlær hún dátt og skemmtir sér yfir þessari æðislegu stelpu sem hún kannast ábyggilega vel við. Annars er hún alltaf á fullu að leika sér, búa um barnið sitt og láta það lúlla, keyra bangsana sína, draga endurnar á eftir sér, kubba, púsla og spila á hljómborðið sitt. Af og til getur hún stoppað við og t.d. reynt að setja snúruna í fartölvuna í korter og reynt að klæða sig í skó í korter. Gaman að því! Hún er orðin stríðin og finnst gaman að fela sig og fara út í alls konar horn og skot. Hleypur í burtu og vill láta ná sér. Hún sér leik í flestu og er að jafnaði mjög glöð og góð.

Annars er hún voðalega lítið knúsudýr. Hefur engan tíma til að knúsa foreldrana nema þeir virkilega biðji um það, en það er búið að búa til Stubbaknús á heimilinu til að daman knúsi foreldrana af og til! En hún elskar að kyssa og kyssir okkur oft og innilega með galopinn munninn!

Vera er alltaf dugleg að fara að sofa. Hún fær ennþá pelann sinn, sem er orðið meiri hefð en nauðsyn, og svo kyssumst við góða nótt og hún sofnar sjálf eftir að hafa talað í dágóða stund við tærnar á sér og reynt að finna sér góða stellingu til að sofna í.

Vera er bara yndislegt barn. Miðillinn sagði hana gamla sál með mjög þroskaða undirmeðvitund. Ég vissi það svo sem, finn það. Hún getur verið stygg eins og gömul kona og vill ekki mikið láta trufla sig. Hún er mjög sjálfstæð einbeitt eins og hún hafi reynslu af öllu sem hún gerir. Hún heldur að hún sé eldri en hún er þótt hún fari samt mjög varlega og er alls enginn tætari.

Vera elskar að dansa og tjúttar og dillir sér við hvert tækifæri þegar hún heyrir tónlist. Hún er farin að raula aðeins sjálf með lögum. Og syngja með einu lagi sem ég syng stundum fyrir hana um Abbalabbalá. Hún kann að segja labba svo þetta um Abbalabbalá er ekki svo flókið fyrir hana. Það er alveg yndislegt að heyra hana gaula þetta með mér!

Mamman er tótallí að missa sig yfir litlu dömunni sinni sem hún dýrkar!


Litla hafmeyjan mín að pósa Posted by Picasa

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker