<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Mitt faðirvor 

Heyriði - hér er önnur góð saga af gömlum kærasta...Nei, bara grín, sá pakki er búinn. Í bili alla vega.

Ég er örþreytt. Vinnan er í hámarki en það eru að jafnaði 2 lööööng kvöld í viku sem fara í hana. Og auðvitað allir dagarnir líka. Það þarf mikla orku og einbeitingu til að stýra umræðuhópum, tveimur á kvöldi. Gríðarlegt álag eftir líka annasaman vinnudag. Veru sé ég ekkert þessa daga sem er sárt.

Svo var kór í kvöld. Soldið strembnar vikur. Lítið frí til að hangsa og gera ekki neitt. Í kvöld tókum við í kórnum upp 3 lög eftir Árna Björnsson, á disk sko. Eitt af þeim er alveg magnað fallegt, hef sagt áður frá því en það heitir Mitt faðirvor. Ólýsanlega fallegt. Hér er textinn, en hann segir margt og hvað þá þegar góði kórinn minn tekur lagið. Hrikalega fallegt og sorglegt í senn ef maður veit söguna á bakvið lagið.

Það var einhvern veginn þannig að hann Árni Björnsson, sem nú er látinn, var laminn all illilega niðri í bæ af einhverjum gaurum sem höfðu ekkert á hann. Tilefnislaus árás að talið er. Hann slasaðist mjög illa og varð mikill öryrki eftir þetta. Hann samdi lagið og félagi hans Kristján frá Djúpalæk samdi textann er þeir dvöldu saman á heilsuhæli. Árni var mikill tónlistarmaður en hafði ekki getað iðkað þá vinnu sökum heilsubrests. Kristján skoraði víst á hann eða eitthvað slíkt. Og Árni samdi gullfallegt lag við textann hans. Og spilaði lagið svo einu sinni á dag alla sína ævi, sem voru víst þó nokkuð mörg ár.
Alveg magnað.

Ef öndvert allt þér gengur,
og undan halla fer,
skal sókn í huga hafin
og hún mun bjarga þér.
Við getum eigin ævi
í óskafarveg leitt
og vaxið hverjum vanda
sé vilja beitt.

Hvar einn leit naktar auðnir,
sér annar blómaskrúð.
Það verður, sem þú væntir,
það vex, sem að er hlúð.
Því rækta rósir vona
í reit þíns hjarta skalt,
og búast við því bezta
þó blási kalt.

Þó örlög öllum væru
á ókunn bókfell skráð,
það næst úr nornahöndum
ef nógu heitt er þráð.
Þrjú orð að endurtaka
ég er við hvert mitt spor:
fegurð, gleði, friður -
mitt faðirvor.

Best að gera þetta að mínu faðirvori.
Um að gera að vera jákvæð og bjartsýn :) (jafnvel þótt nóttin líti ekki vel út - Vera vaaaaar að gubba út um allt rúm!)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker