<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Haustlykt á heimilinu 

Þegar ég fór út í morgun fann ég sérstaka lykt sem ég kalla skólalykt. Já, það var sko skólalykt í loftinu, svona svalt loft snemma morguns um haust. Minnti mig á skólann, og skólabækur. Það er greinilega komið haust!

Haustið finnst mér fínt. Maður á góðar minningar að baki um sumarið og er tilbúinn að hella sér í verkefni haustsins sem iðulega eru mörg og ströng í vinnunni. Eftir letilíf sumarsins og frí lifna allir við. Það kemur einhver orka og allt í einu skiptir ekki máli hvort sólin skín eða ekki. Ég er ekkert að biðja um rigningu en maður er hvort eð er bara inni, það er orðið skítkalt.

Einu sinni kom vinkona mín frá Suður-Evrópu í heimsókn til mín. Og hún var svo hissa hvað það var hlýlegt inni hjá okkur. Og raunar öllum Íslendingum. Hvað það væri mikið lagt upp úr heimilunum. Úti þar sem hún bjó sagði hún heimilið jú heilagt og allt það en að það væri ekki svona hlýlegt og kósí. Útskýringin hlýtur að vera sú að við Íslendingar eyðum jú alveg fullt af tíma alltaf inni hjá okkur, vegna veðurfarsins. Yfir veturinn er maður jú eiginlega alltaf inni nema þegar maður skreppur út í bíl og inn í vinnuna. Svo maður vill hafa kósí og hómí í kringum sig. Síðar kom ég í heimsókn til þessarar vinkonu úti í Evrópu og átti hún mjög fallegt heimili. Það var bara sama og ekkert inni hjá henni. Það var sófi og borð í stofunni og arin sem þjónaði tilgangi svölustu kvöldin. En annars bara hálf bók, eitt kerti og köttur. Og það virkaði þar og mér leið mjög vel þar. En gvuð, ekki hér heima!

Ég og Viggi erum einmitt núna að byrja að skoða okkur um fyrir nýja gamla húsið okkar. Við fáum það afhent 1. desember og þá förum við á fullt að bæta og breyta, en það hefur ansi lítið verið átt við það síðan það var byggt 1954. Viggi smiður sér strax mikla möguleika og klægjar í puttana að byrja á verkinu. Ég á ábyggilega bara eftir að vera fyrir. Nei, ég verð á hliðarlínunni að hvetja!
Það er svolítið skrýtið að þurfa að velja sér nýjan vask og gólf og svona hluti sem ég pæli jafnan ekki mikið í. En Viggi er vanari, hefur unnið mikið við að gera upp hús hjá fólki og hefur séð ýmislegt flott. Svo er bara spurning hvað budgetið leyfir manni. En hvar sem við endum og lendum í þessu þá veit ég að það verður alla vega heimilislegt a la Erla í nýja húsinu :)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker