<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, ágúst 29, 2005

Gamla ég 

Ég fékk löðrung í andlitið í síðustu viku.

Síðan ég var 18 ára gömul hefur mig dreymt um að læra að syngja. Í MH bauð fjárhagurinn engan veginn upp á söngnám þótt eftir á að hyggja hafi það ekki verið svo dýrt. Það var bara dýrt fyrir mig sem lifði aðallega á spagettí með tómatsósu og seríósi í sparnaðarskyni á þessum árum.

Ég hef fullnægt þessari gaulþörf með því að vera í kórum, fyrst í Skólakór Menntaskólans við Hamrahlíð og svo núna, mörgum árum síðar í Kammerkór Hafnarfjarðar. Og jú, syngja í sturtu og partýjum.

En alltaf langar mig í aðeins meira. Að læra að syngja. Grundvallaratriðin og svo bara sjá til hvernig gengur, hvað maður fer langt eða í hvernig söng. Ég veit ég get sungið og hef svakalega gaman af því, en um leið veit ég að ég þarf að læra til að verða betri, því ég er langt frá því að vera þrusugóð.

Svo ég tók upp tólið, loks búin að ákveða að láta nú verða af þessu eftir öll þessi umhugsunar og mögru ár. Hringdi í FÍH og ætlaði sko að skrá mig í Jazzsöngnám. Fékk fiðring í magann og sá mig sem Andreu Gylfa eða Kristjönu í anda eftir nokkur ár.
Og þá fékk ég löðrunginn.

Ég var orðin of gömul. Þeir sem eru eldri en 27 ára fá ekki niðurgreitt tónlistarnám. Jahá. Hver svo sem skilgreindi þá sem eru 27 ára sem gamalt fólk sem hefur ekki þörf eða löngun eða hæfileika lengur til að hefja söngnám (tja, eða halda því áfram frá því sem horfið er) er HÁLFVITI. Eins og 27 ára og eldri séu ekki líka fólk sem langar að nema og læra áfram? Skil ekki þessa niðurstöðu. Þetta eru víst nýjar reglur sem ríkisstjórnin gerði. Fokk sjitt í helvíti.

Þeim að kenna að maður fær drauminn ekki uppfylltan. Ég veit, ég hugsaði mig alltof lengi um, og fannst rétti tíminn kannski vera löngu kominn. En núna alla vega tók ég upp tólið og hringdi, alveg hrikalega tilbúin í tuskið. Ég get svo sem farið í þetta nám, en þá kostar árið mig ekki nema rúmlega 400 þúsund krónur, í staðinn fyrir 80 áður. Og þótt draumurinn sé eflaust þess virði þá hef ég meðalmanneskjan alls ekki ráð á þessu. Hef ekki ráð á því að verða gömul. Þótt ég sé orðin gömul.

Gvuð, hvað ætli komi næst.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker