<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júlí 30, 2005

Verslunarmannahelgi 

Ég er ekki að fara til Eyja og heldur ekki í Galtalæk um helgina. Ég ætla að vera heima með minni familíu og hafa það næs. Grilla með vinum og ættingjum, kíkja upp í bústað til tengdó og rölta út í náttúrunni í nágreni heimilisins.

Sú var tíð að spennan innra með Erlu unglingi magnaðist þegar á leið verzló. Ég fór á nokkur góð útilegudjömm um þessa frægu fylleríshelgi. Þetta byrjaði nú samt allt voðalega sakleysislega með því að ég gekk í lið Góðtemplara og fór í Galtalæk undir þeim formerkjum að ég væri að vinna. Og jú, ég vann eitthvað. Í tívolíinu á staðnum og einnig við að spotta unglinga sem voru að drekka. Þá átti ég að klaga í yfirmenninga sem komu í löggufíling og helltu niður öllu sem var sterkara en malt. Ó, já. Ég var 14 ára og drakk sko ekki dropa. Þurftir þess ekki af því ég var svo náttúrulega hress (aha...!) Klagaði bara og fékk hrós fyrir. Ég fór í Galtalæk tvisvar sinnum og í annað sinn var ég ásamt fleiri vinkonum farin að svíkjast aaaðeins undan og leika sjálfar löggurnar, taka vínið af drukknum unglingunum hella pínu niður, en drekka restina svo sjálfar. Já, ég var ekki lengi Góðtemplari. Þótt ég hafi nú samt verið góð. Markmiðið var að drekka slatta og finna sæta stráka til að tala við. Þetta var nú allt voðalega saklaust þarna í Galtalæk, en þeim mun svæsnara í Þórsmörk árið eftir um þessa sömu helgi. Úff, bara strákastand og læti. Dottin í það á öllum sviðum. Pæja dauðans með unglingaveiki og á gelgju aldarinnar. Í stuði. En samt alltaf góð og skynsöm. Skemmti mér fallega. Ég veit alla vega að Húnaver og Eldborg sem Viggi sótti áður en við kynntumst voru verra en allt sem ég get lýst...

Þetta er samt upptalið með verslumarmannahelgargigg hjá mér í den. Svo tók búseta í Sviss við og ferðalag um heiminn og þá skipti verzló engu máli. Í seinni tíð hefur þessi langa helgi svo helst verið notuð undir sumarbústaðaferðir eða fjallgöngur. Það er í fyrsta sinn í ár sem ég hangi heima þessa frægu helgi. Nenni ekki út úr bænum, er sannur innipúki. Ætla að skella mér á stuðmannatónleikana annað kvöld bara svona til að sýna lit og hreyfa í mér blóðið. Æj, hvað þetta er nú kósi svona heima í rúminu mínu, ekkert tjald, engin rigning, engin læti, engi æla, engin þvæla...

Er ég orðin gömul að hugsa svona? Ég veit það ekki - en flestir vina okkar eru líka heima þessa helgi í ár. Allir bara að sinna sínum börnum og taka því rólega. Og eru sáttir við liðið verzló-sukklífið.
Úff, ég er greinilega orðin sannur innipúki... ekki alveg minn stíll. Eða það VAR alla vega ekki minn stíll. Þarf að fara að gera eitthvað í þessu.
Á næsta ári tek ég mig á.
Lofa.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker