<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Útilegan rosalega 

Íslenskar útilegur eru brjálæði. Algjört brjálæði.
ÚTILEGA - hver leggur í slíkt athæfi með þessa merkingu? Að liggja úti og það á ÍSlandi. Í hávaða roki, dynjandi rigningu, sandstormi og ískulda. Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni í hug að fara í útilegu á Íslandi? Þá meina ég í tjaldi. Þetta ætti frekar að heita tjaldsvaðilfarir, tjaldbrjálæði, tjaldfok, tjaldlangavitleysa eða tjaldútilegaíískuldaogrokihvaðertaðpælamaður???!!!

Sumir eiga tjaldvagna og einbýli á hjólum og hafa þeir það betur en við hin sem verðum að láta okkur old school Ægistjöldin duga. Tjöldin leka, fjúka, tjaldsúlur brotna, það rennur á í gegnum svefntjaldið, það er hávaðasamt og ekki gleyma ís fokkings kalt.

Ég sá fyrir mér ljúft tjaldlíf á Arnarstapa um helgina. Með Veru mús bara á peysunni, leikandi sér sjálf í grasinu í góðum fíling. Sjálf væri ég í sólbaði að tjilla og kjafta við stelpurnar og Viggi að spila fótbolta með strákunum eða leika sér á fjórhjólinu sem hann fékk lánað fyrir helgina. Allir IMGarar væru vinir og makar að kynnast og leika sér.
Ehhh, ekki alveg...

Við lögðum í hann glöð í bragði á föstudag eftir vinnu. Ætluðum jú að leggja af stað um fjögur leytið en eins og góðu barnafólki sæmir seinkaði okkur um nokkra klukkutíma og rann bíllinn úr hlaði hjá Esso í Mosó um kl. hálfníu um kvöldið. Það þurfti að redda kerru fyrir fjórhjólið, og svo var kerran og lítil fyrir hjólið, og þá þurfti að redda annarri kerru, setja hjólið á kerruna, taka bensín, gefa Veru að borða, fá sér samloku og kók og skipta á kúkableyju áður en lagt var í hann af alvöru. Ferðin gekk svo vel fram af. Vera sofnaði og var hin ljúfasta og við á góðri siglingu (þó bara á 80-90 með þessa risakerru í aftanítogi) á leið á elsku Snæfellsnesið sem er svo fallegt og kyngimagnað og allt það.

Þegar bíllinn bilar. Það heyrðist bara kloooong og við rétt náðum að láta bílinn renna út af þjóðveginum og í innkeyrsluna á einhverjum bæ á leiðinni. Þetta gerðist þegar klukkan var að ganga miðnætti og um klukkutími í Arnarstapa. Kaldhæðni örlaganna stýrðu því þannig að bærinn hét því viðeigandi nafni GRÖF. Frábært. Fyrr færi ég sem sagt í gröfina en á Arnarstapa þessa helgi. Viggi lagðist undir bílinn eins og sönnun bílatöffara sæmir og varð týpan sem er ber að ofan með smurolíu í hárinu og dekk á öxlinni. Eða þið vitið. Hann stóð sig vel, en gat ekki lagað bílinn, því framdrifið hafði brotnað (eða framöxulinn og þar sem bíllinn var ekki splittaður að framan var ekki hægt að keyra hann þannig - kapító??!) og það vantaði varahluti til að komast áfram.

Á öðrum stað, nánar tiltekið á Arnarstapa, var Stebbi frábæri sem ætlar með okkur til Krítar nýkominn á staðinn og tssssssssssss var að opna fyrsta bjór kvöldsins. Þegar hann fékk símtal frá okkur þess efnis að hann yrði eiginlega að sækja okkur þar sem bíllinn væri bilaður. Frábært fyrir Stebba. En þar sem hann er öðlingsljúflingur sótti hann okkur sem betur fer. Við Vera höfðum húkt í bílnum á GRÖF í nokkra tíma á meðan Viggi reyndi að laga bílinn. Vera var reyndar bara spræk og var í bílstjóraleik. Ég viðurkenni að ég var hins vegar ekki alveg jafn hress. En við komumst á leiðarenda um miðja nótt og það fór lítið fyrir djammi og djúserí það kvöld, sem var annars ágætis kvöld veðurfarslega séð. Ég annars man það ekki ég var svo þreytt, en ég man að það var ekki rigning (getur það verið??).

Ég var nýsofnuð þegar ég vakna við byljandi dynjandi hávaða á tjaldinu. Ekta íslenskt sumarveður = rok og rigning var að láta heyra í sér. Og það var lítið sofið þá nótt. Vera hefur reyndar sjaldan sofið eins vel, þvílíkt dúðuð í flísgalla, með húfu, á gærunni með dúnsæng. Henni leið svo vel að hún svaf meira að segja í sömu stellingunni alla nóttina! Það var það EINA jákvæða við þetta óveður. Já, þetta var óveður. Tjöld fuku, fólk vaknaði með blautar sængur og tjöldin beisikklí ofan á sér. Ekki við samt, sem betur fer. Dagurinn tók við og tíska dagsins var svartur ruslapoki yfir öll rándýru vatnsheldu gore-tex fötin sem héldu að sjálfsögðu ekki því vatni sem okkur var skammtað að ofan. Svo plastpoki var það heillin. Kúl. Vera var reyndar að fíla þetta og kuðlaðist um svæðið í nýja pollagallanum sínum. Og svaf heillengi í kerrunni sinni í brjálaðri rigningu og roki. Spurning um að taka upp svona óveðurshljóð og spila þegar daman á erfitt með svefn! Við Viggi lékum okkur pínu á fjórhjólinu, eða ég lærði að skipta um gír á græjunni og rétt að taka í hana á meðan Viggi tætti upp drulluna og vatnið með brjálæðisglampa í augunum. Gaman, gaman!!! Svo kom brósi með varahlut úr bænum og saman lágu þeir Viggi undir bílnum í þó nokkuð margar klukkustundir, eða fram á kvöld. Æðislegt stuð fyrir þá.

Það ringdi klikkaðslega fram til að ganga 4 síðdegis. Þá var maður líka orðinn ansi þreyttur á þessu og ég veit ekki hvað ég hafði oft spurt mig hvað í andskotanum ég væri nú að pæla hér í þessu rugli. Af hverju var ég ekki bara heima í ljúfu lífi? Ég meina, hafið prófað að skipta á kúkableyju inni í tjaldi í ausandi rigningu með barnið kappklætt og í pollagalla og alles? Úff, það er þrekraun sem erfitt er að lýsa. Ég var alltaf á leiðinni heim, þegar ég fattaði að ég var ekki á bíl. Demit. Þetta var ERFIÐUR dagur. Og erfið helgi. Flestir félagarnir tóku rúntinn í óveðrinu á Ólafsvík í sund eða bara eitthvert til að eyða tíma og verja sig vatninu, en það var ekki í boði á þessum bænum. Bara bleyta og bið.

Svo stytti upp! Alveg lygilegt. Og Viggi og brósi komu á kagganum sem var eins og nýr. Eða næstum því. Það þarf víst að gera við hann fyrir fimmtíukall í viðbót, sjúff. Ég segi það satt að ég var hreinlega búin að gleyma því hvernig lífið væri án rigningar. Þá var partýtjaldinu hent upp í snatri og grillundirbúningurinn hófst. Það voru um 70 IMGarar með mökum og börnum sem snæddu góðan grillmat og fjörið stóð fram á nótt. Ég man að sólin kom upp eftir nokkra góða gítarslagara um kl. 4 og það var dýrðlegt. Jafn ömurlegur og rigningardagurinn með bilaða bílinn hafði verið var þessi nótt flott. En köld. Mér var ískalt enda með hósta og hálsbólgu í dag. Ég gat eiginlega ekki hugsað mér að fara að sofa vegna þess hve kalt mér var. Og ég vissi að svefnpokinn minn var ekki heitur eins og rúmið mitt. Svo ég dró það að fara að sofa eins lengi og ég gat. Og klukkan sló alla vega sex þegar ég lét vaða inn í kuldadraumaheiminn. Brrrrr.

Og svo er ég núna gjörsamlega uppgefin eftir helgina. Með einhverja magapest eins og margir aðrir IMGarar eftir helgina. Spurning með matareitrun, ég veit það ekki. Eða þá að við höfum smitað hvort annað þegar við vorum í kiss kiss og útaf eða eina mínútu í helvíti. Eitthvað var það alla vega.

Þótt þessi svaðilför hafi eftir á að hyggja verið skemmtileg og margar skemmtilegar stundir inn á milli sem hægt er að minnast með brosi, er þetta án efa erfiðasta útilega sem ég hef farið í. Bilaður bíll, magapest og hálsbólga, rigning og rok, ískuldi og bið. Kofinn er í rúst eftir allt útilegudótið. Gítarinn, fjórhjólið og góða skapið í Veru vega þetta þó næstum því upp.

Markmið vikunnar er að ganga frá öllu útilegudraslinu og þrífa kofann fyrir Krít sem nálgast óðum. Ah, það verður nú meiri frábæra útlenska útilegan. Þar verður gott að liggja úti. Fáklæddur og heitur. Með kokteil í annarri og ís í hinni. Engin rigning, ekkert rok, engin föt...

Svo ég endi nú samt á jákvæðum nótum þá var Vera þvílíkt að fíla þessa útilegu. Henni fannst hún ekkert erfið. Bara sulla í pollunum, leika við krakkana, sofa voða vel í tjaldinu og kerrunni, borða lambafillet og knúsa mömmu og pabba þegar þau voru að því komin að gefast upp...

Svona var nú sjóferð sú.
ALDREI AFTUR!!!
En skemmtilegar myndir samt...


Krúttið mitt! Posted by Picasa

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker