<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 07, 2005

Herbergið og helv...hafrakexið 

Haldiði að ég hafi ekki bara pakkað nánast öllum töskunum mínum niður um helgina. Töskuflóðið er sem sagt farið niður í kjallara og töskuherbergið officially ekki lengur til! Þetta hlýtur að þýða að maður sé að verða fullorðinn. Vera stefnir að því að flytja bráðum í sitt eigið herbergi og ekki langar mig að hafa það fullt af gömlum töskum frá mömmunni. Neibb, þetta á að vera fínt barnaherbergi og með öllu laust við töskur. Með fiðrildagardínum og blómóttu veggfóðri á súðinni. Bleikt og krúttlegt að sjálfsögðu.

Vera er einmitt nýbúin að uppgötva þetta herbergi, sem er fullt af skemmtilegu öðruvísi dóti heldur en hún er vön að leika sér við niðri í stofu. Og núna þegar við erum uppi á efri hæðinni eitthvað að gera tekur hún strax á harðasprettinn inn í herbergið sitt, svaka ánægð. Og hún er farin að fara ansi hratt yfir með þessari rassaskriðtækni sinni. Er eins og lítil kanína á fleygiferð!!

Annars gerðist eitt hræðilegt í gær. Ég gaf Veru hafrakex til að borða á meðan ég tók til matinn. Svo byrjar hún að hósta lítillega og kexið stendur greinilega í henni. Svo hóstaði hún alltaf meira og meira þar til kom að því að barnið stóð á öndinni. Hún varð eldrauð í framan og náði ekki andanum, með kexið fast í hálsinum. Ég bankaði á bakið á henni og reyndi að hjálpa henni en það gekk ekki í fyrstu. Svo ég tók hana upp og barði hreinlega á bakið á henni, öskrandi móðursjúk og skíthrædd. Vera var ennþá þögul og rauð í framan nokkrum sekúndum síðar, þetta gerðist jú allt á nokkrum sekúndum. Svo ég tók upp símann og var búin að stimpla inn 112 þegar ég leit aftur á hana. Þá horfði hún á mig með þessum þvílíkt sæta undrunarsvip, alveg hissa á því af hverju mamman væri hágrenjandi og í uppnámi. Ég settist bara niður og knúsaði hana í spað, gvuðslifandifegin því að þetta hafi nú allt bjargast. Þetta var hrikaleg tilfinning sem kom yfir mig þarna horfandi á Veru að reyna að anda.

Á þessum sekúndum, sem virtust mínútur í panikinni, fann ég hvað ég elskaði Veruna hrikalega mikið. Og að ég gæti hreinlega ekki lifað án hennar. Þetta atvik var algjörlega ólýsanlega óþægilegt. Já, svona stríðir lífið manni stundum.
Ég ætla alla vega aldrei aftur að gefa henni hafrakex. That´s for sure!

Oh, ég er að vinna fram á kvöld og Viggi sótti Veru til dagmammanna. Og ég sakna hennar svo hrikalega... snökt.
Vorkennið mér núna takk!

Kv,
Erla vinnuhestur

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker