<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, júní 19, 2005

Ég er kona! 

Og hvað er svona merkilegt við það? Við kunnum að bora í vegg og skipta um dekk á vörubíl og getum hæglega borið áburðarpoka ef við vildum.

En það er samt margt annað merkilegt við það að vera kona. Ég fer á túr, ég gef barninu brjóst og út af því (tja, hverju öðru ef maður hugsar þetta from skratz?) er ég með lægri laun heldur en náunginn karlmaðurinn við hliðina á mér í vinnunni. Jebb, þessi með typpið.
Og á ég að kvarta?
Þótt ég sé kona og stolt af því er ég glötuð baráttukona. Sit bara hér á rassinum og klóra mér í hausnum og skil ekkert í því af hverju ég er t.d. með lægri laun heldur en karlkyns mannfræðingurinn við hliðina á mér.

Í dag eru 90 ár síðan konur á Íslandi fengu kosningarétt. Ég á því kynsystrum mínum í gamla daga heilmikið að þakka. Kvarta ekki yfir því. Rauðsokkum og harðlínu feministum þakka ég hér með allt gamalt og gott. Þær náðu langt og voru/eru sannar í baráttu sinni. Pæliði í því - kosningaréttur! Þvílíki sjálfsagði hluturinn í dag. Já, einhvers staðar urðu þær að byrja.

Maður spyr sig samt af hverju staðan er ennþá eins og hún er í dag. Launamunur kynjanna er staðreynd og bein tengsl konunnar við heimilið eru ennþá algjör. Þó svo að ég þekki í dag mun fleiri flottar karríerkonur heldur en húsmæður sem hræra í pottum virðist eldgamla staðalímyndin að drepa alla framþróun í jafnréttisbaráttunni.

Samkvæmt launakönnun VR 2004 er kynbundinn launamunur, þ.e. þegar búið er að taka tillit til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs og starfsstéttar er 15%. Karlar eru að meðaltali með hærri laun en konur á öllum menntastigum að teknu tilliti til vinnutíma. Karlar óska líka að meðaltali eftir hærri launum en konur. Af hverju ætli það sé? Jú, þeir hljóta að finna og vita að þeir eru okkur æðri hvað þetta varðar. Þeir vita af þessum mun og leyfa sér að vera djarfir. Flestir yfirmenn eru svo líka karlmenn þannig að karl og díla við karl hlýtur að gefa betri niðurstöðu heldur en kona að díla við karl. Ég hef nú engar rannsóknir á bak við mig í þessari pælingu, en hei, gæti meikað sens. Þetta er s.s. allt körlunum að kenna!!

Eða hvað? Erum við konur kannski sjálfar að setja okkur á þennan lægri pall ómeðvitað. Viljum við í alvöru verða eins og karlarnir? Af hverju biðjum við ekki um eins hátt kaup og karlarnir? Ég veit það ekki, en innst inni þá held ég að náttúran hafi skapað okkur þannig að einhvern veginn virðumst við hafa meiri taugar til barnanna (en gvuð, ekki taka því þannig að pabbarnir séu ekki með taugar til barna sinna!!) og jafnvel vilja heitar vera heima með þeim heldur en úti að vinna. Fórnum okkur frekar fyrir fjölskylduna og forgangsröðum félagslegu hlutunum ofar heldur en vinnunni. Tengslin við heimilið eru því kannski ekki svo gamaldags þegar allt kemur til alls. Mjúka ímyndin er föst á okkur og auðvitað þurfa soft manneskjur ekki eins há laun og sá harði nagli við hliðina á. Æj, ég veit það ekki. Hvort kemur á undan - eggið eða hænan?

Ég er ánægð með að vera kona. Nenni ekki að kvarta yfir því. Ég er tiltölulega sátt við mitt, næ að sinna vinnunni, heimilinu, barninu og karlinum dável. Ég er hamingjusöm og á ofan í mig og á. Þegar ég hins vegar hugsa svo til þess að það er ein kantóna í Sviss þar sem konur eru glænýbúnar að fá kosningarétt verður mér pínu flökurt. Er ég þá heppin að vera á Íslandi. Við verðum samt að halda áfram að berjast - segið mér bara hvað ég á að gera til að þetta takist, ég hef ekki verið ötul í baráttunni hingað til - lít þvílíkt upp til hugsjónakvennanna sem berjast fyrir mig!
Þetta er kúl dagur.
Go gals!
E

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker