<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, mars 26, 2005

Tónleikarnir miklu og Vorhreingerningin mikla 

Ég er búin að vera í ham í dag. Og reyndar undanfarna daga. Svona inn á milli kóræfinga og dúlleríis með múttu.

Tónleikarnir í gær tókust með besta móti. Þegar ég mætti í upphitun um það bil 40 mínútum fyrir tónleika var heill haugur af fólki í hrúgu fyrir framan Fríkirkjudyrnar sem var frekar fyndið. Eins og fólk væri að fara á Bítlana og væri tilbúið að slást um bestu sætin. Eða svona næstum því. Kirkjan var sneisafull og tekur víst um það bil 500 manns í sæti. Sumir fengu ekki miða og létu skrá sig á biðlista í von um að komast inn ef ekki allir með forselda miða kæmu!! Biðlisti á kórtónleika...haha! Ókey, Andrea Gylfa og Deitra Farr voru þarna líka ásamt hljómsveitinni.

Þetta voru sem sagt flottir tónleikar með skemmtilegri dagskrá, fjörugri en sorgmæddri um leið þar sem negrasálmarnir fjalla jú um vonina um frelsi þræla plús að það var föstudagurinn laaaaaaaaangi. Þá er víst "bannað" að vera of hress. Ég er greinilega ennþá í hormónarugli (segjum það bara, er alltaf góð afsökun fyrir hinu óútskýranlega...) þar sem ég átti fullt í fangi með að halda aftur tárunum í nokkrum lögum. Svo áhrifamikil er þessi fallega tónlist. Hélt samt að mér væri allri lokið í laginu "This little light of mine" sem var hressasta lagið á dagskránni. Allir klöppuðu með í þvílíkum fíling og Deitra Díva og kórinn að gera þvílíka hluti, og ég alveg að missa það. Af gleði. Og sorg. Og gleði. Og stuði.

En út í annað.
Eftir að snjórinn tók upp á því að hverfa endanlega og daginn tók að lengja fór svona vorhreingerningarfiðringur um mig. Allt í einu hreinlega klægjaði mig í puttana að fá að þrífa, taka til, endurskipuleggja, grysja og síðast en ekki síst henda slatta af því dóti sem maður á. Já, dagurinn í dag var í raun endapunkturinn á vorhreingerningarsenunni minni. Hef verið að nota undanfarna daga, á meðan amman er á landinu og passar Veru, til að taka til í hirslum, í fataherberginu (vá, hvað Rauði Krossinn fékk feita fatapoka þar...) og svo í dag í geymslunni. Þvílíkt og annað eins drasl hefur ekki sést. Jah, alla vega síðan síðasta vor þegar ég gerði nákvmælega sama hlutinn.

Mér hefur reyndar alltaf þótt erfitt að henda hlutum, hef meira verið þessi söfnunaráráttutýpa. Viggi á einn kassa í geymslunni en ég svona 20 stykki. Ég meina, ég fæ mig bara ekki til að henda gullmedalíunum mínum (já, ég var alvöru sunddrottning ef þið eruð búin að gleyma því!) og gömlu skriftarbókunum. Bara sorrí.

En vá hvað það er gott að vera búin að þessu. Gott að vera búin að fara í gegnum allt dótið og velja og henda. Þegar maður tekur til í geymslunni er eins
og maður sé um leið svolítið að taka til í sálinni á sér. Maður fer í gegnum milljón hluti með minningar sem maður valdi eitt sinn að geyma. Og svo hendir maður og vonar að minningin gleymist ekki alveg.

Ah, vortónleikar vorhreingerning búin.
Vorið má koma núna.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker