<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, febrúar 12, 2005

Brjóstagjöfin 

Að vera með barn á brjósti er yndislegt. Ok, undirbúið ykkur elskurnar... er að verða svakalega sentimental og skemmtileg hér. Ofurtöffarar hætti að lesa núna, nema þeir séu væmnir inn við beinið eins og ég.

Ég verð að segja að þegar ég var ólétt fannst mér erfitt að tengja útstandandi magann á mér við barn. Jú, ég vissi að þarna inni yxi barn, barnið mitt, en einhvern veginn tengdi ég þetta tvennt ekki frekar. Mér leið vel á óléttunni, var súperhress allan tímann og fannst ég meira að segja sæmilega sexí með bumbuna mína. Brjóstin uxu eins og bumban og ég var komin með þrusubobbinga þegar dóttirin fæddist. Hvað þá þegar mjólkin kom í þau...æts, vil samt helst ekki rifja það upp, það var frekar sárt. En ég lúkkaði samt eins og Pamela Anderson í nokkra daga. Verð þó að segja að það dugði skammt til að bæta líðanin með brjóstin full af stálma. Restin af líkamanum var svo líka eins langt frá því og hægt er að vera eins og Pamela!! Ég naut þess ekki í fyrstu að gefa Veru brjóst vegna sársaukans, en svo kom jafnvægi á framleiðsluna og brjóstagjöfin varð að yndislegri athöfn sem bara við mægðurnar áttum saman. Ég og hún. Í kósíheitum og kúri. Algjör draumur.

Ég hugsa oft til pabbanna sem fá ekki það tækifæri að vera með barn á brjósti, sem og þeirra mæðra sem af einhverjum ástæðum geta ekki verið með börnin sín á brjósti. Það er ólýsanleg tilfinning sem fylgir þessu sem ég vildi óska að pabbarnir fengju líka að upplifa. Ég veit að þeir finna sér “their thing” í staðinn fyrir brjóstið, eins og nudd eða annað. En samt. Brjóstagjöf móður til barns er himnesk gjöf. Þessi nánd er svo hrein og falleg. Sumir segja (mannfræðilegar pælingar) að brjóstagjöf sé eina hreina gjöfin, þ.e. þar sem fólk ætlast ekki til neins tilbaka frá þiggjandanum. Ég gæti alveg tekið undir það. Þessi litlu saklausu kríli stóla á mann með allt sitt og náttúran sá um þá frábæru tæknilegu hlið að gefa konunni brjóst til að koma barninu á legg. Þetta er algjört kraftaverk í mínum huga. Ótrúlegt.

Á meðgöngunni átti ég erfitt með að sjá mig fyrir mér með barn á brjósti. Wow, hægan, hægan. Ég á þessi brjóst, Viggi á þau stundum og thats it. Búið mál. Þau stóðu fyrir sexappíl í mínum huga og voru grínlaust einhver hluti af mínu sjálfsmati. Ég veit að það er kjánalegt að halda að hluti af sjálfsmati sínu hangi framan á bringunni á sér, en þannig var það og er án efa hjá flestum konum. Mér fannst ég með þessi barasta ágætisbrjóst þótt í minni kantinum væru.

Uppi á kvennadeild þar sem ég dvaldi eftir keisarann brjóstaðist ég með Veru strax frá byrjun. Hún var komin á brjóstið á mér mjög fljótt eftir að hún kom í heiminn og ég hugsaði strax með mér hvað þetta væri magnað. Mér fannst þetta ekki vitund skrýtin tilfinning eins og mér hafði fundið þetta súrrealísk pæling fyrir fæðingu. Fyrir fæðingu kveið ég jafnvel fyrir því að þurfa að kveðja brjóstin mín og afhenda þau barninu fyrir fullt og allt. En, þegar Vera kom var eins og móðir náttúra hafði skotið mig í hausinn og mér fannst þetta strax hið eðlilegasta mál, að brauðfæða barnið mitt á brjóstinu á mér. Sjálfsmatið var farið eitthvert annað, það var alla vega ekki snefill af því eftir í brjóstunum á mér. Og mun held ég aldrei verða framar. Ég held líka að þau muni hvort eð er nánast hverfa eftir þessa brjóstagjafatörn... Finn strax hvað þau eru orðin slöpp greyin. En mér gæti ekki verið meira sama. Ég hef þjónað dóttur minni með þeim eins vel og ég mögulega get og er þakklát fyrir að hafa getað fengið þetta tækifæri. Maður hefur jú verið vel bundinn að þurfa að gefa brjóst á nokkurra klukkutíma fresti síðastliðna mánuði, en það er allt þess virði. Þetta er órjúfanlegur hlekkur við barnið sem getur tekið vel í á köflum, en í alvöru, eftir 7 mánaða brjóstagjöf man maður bara það ljúfa og góða við hana.

Uppi á deild hitti ég mömmur sem áttu í vandræðum með mjólkina í brjóstunum. Þær reyndu að pumpa brjóstin í þar til gerðum vélum til að örva framleiðsluna. Hjá mörgum þeirra gekk það ekki upp. Þær voru stressaðar yfir þessu og kviðu því að fá ekki að hafa barnið sitt á brjósti. Bæði að barnið þeirra fengi ekki “bestu” mjólkina eins og prédikað hefur verið um, og að upplifa ekki nándina við barnið. Enginn veit af hverju mjólkin kom ekki, hún bara kom ekki. Ég er ekki að segja að ég viti fyrir víst að mæður með börn á pela upplifi ekki það sem mæður með börn á brjósti upplifa, en ég get ímyndað mér að þær myndu kjósa brjóstið ef þær gætu. Eins verða ég að segja að ég sé engan mun á pelabörnum og brjóstabörnum hvað þroska eða annað varðar. Alla vega plumma þau pelabörn sem ég þekki sig mjög vel án brjóstsins. Sagt er að brjóstamjólkin sé góð fyrir ónæmiskerfi barnsins þegar það er svona ungt, og það má vera, en ég er fyrst og fremst að lýsa minni upplifun hér varðandi brjóstagjöfina. Vona að allar pelamömmur skilji það. Eins veit ég að það eru ekki allar mömmur með börn á brjósti sem upplifa sældina við brjóstagjöf eins og ég er að reyna að lýsa hér.

Svo mér finnst ég vera heppin.
Litlu brjóstin mín voru þvílíkt að standa sig, og gera það enn.
Nú er Vera að verða 7 mánaða og búin að vera á brjósti allan tímann. Hún er byrjuð að borða mat og borðar nú tvær máltíðir á dag. Hún drekkur brjóstið eftir matinn og á milli matarmáltíða. Svo hún er ennþá mikið brjóstabarn. Mér finnst það fínt, en kvíði því að þurfa að fara að minnka brjóstagjöfina. Það styttist í að orlofinu ljúki og ég fari aftur að vinna. Þá verður brjóstagjöfin að hverfa frá, alla vega minnka til muna. Það verður líka vinna í því að venja hana af brjóstinu þar sem hún kann ekki enn að drekka úr pela, könnu, glasi eða staupi. Það kemur segja þær reyndu mömmurnar, en Vera er ennþá þvílíkur klaufi og nagar allt sem að kjafti kemur – nema brjóstið.

Ætli það sé samt ekki meira mamman sem fær fráhvarfseinkenni í formi söknuðar.
Ég kvíði því að missa kúrið og knúsið þegar við Vera liggjum saman og drekkum. Kannski er þetta bara egóið í mér, mömmunni með fyrsta barnið sitt, en ég mun virkilega sakna þess. Það er svo mikil innri ró yfir okkur þegar við drekkum. Ég næstum því skil núna mömmuna sem ég veit um sem var með dóttur sína á brjósti til fjögurra ára aldurs. Án gríns, mér finnst það fallegt núna en fannst það afar furðulegt áður en ég prófaði þetta sjálf.

Ég ætla að njóta tímans á brjósti sem eftir með Veru litlu.
Mér finnst lífið bara ólýsanlega dásamlegt þegar ég finn litlu músina mína nærast á mér.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker