<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, júlí 04, 2004

Gæserí 

Að gæsa verðandi brúður fyrir brúðkaup er að mér sýnist orðið að góðri hefð hér á Íslandi. Ég reyndar þekki hvorki sögu þessarar hefðar né veit hvaðan hún er komin. En hún er vinsæl hér.

Tvær síðustu helgar hafa farið í slíkt gæserí hjá mér. Laugardegirnir hafa farið í þvílíkt prógramm með gæsinni og vinkonum hennar og svo sunnudegirnir svo í að hvíla mig eftir þetta allt saman. Já, þetta tekur á! En þetta er svaka gaman. Það má allt. Og gæsin verður að hlýða. Hvað sem málið er. Það er einhvern vegin eins og gæsunin sé ákveðin liminal athöfn og tími þar sem allt er leyfilegt áður en "alvaran" tekur við. Þannig var það einmitt í gær með eina vinkonu mína. Bannað að segja nei. Og hún bara hlýddi okkur í einu og öllu. Og dagskráin í að "pína" hana og gera að fíbbli var þétt. Og þvílíkt skemmtileg. Frá morgni og fram á rauða nótt. Þessi verðandi brúður bjóst í mesta lagi við gæsa-teboði og kom þessi dagskrá henni því ansi vel á óvart. Ákveðið var að gera ekkert sem hún myndi búast við og í raun gera allt það sem hún myndi helst ekki vilja - okkur langaði að hrista upp í henni, t.d. setja hana í skærlituð föt, mála í framan, klæða í hallærisbúning og láta hana dansa og syngja...

Og það var æði. Við byrjuðum á að koma henni á óvart þegar hún var að koma úr sturtu í Hress þar sem hún er að æfa. Þar klæddum við hana upp í "Fame" jassballet búning og tók hún okkur í einkaþjálfun í tækjasalnum. Þar á eftir fór hún inn í eróbikktíma og kenndi helstu Jane Fonda múvin og taktana úr Fame. Og stelpan rúllaði þessu upp og var í þvílíku stuði. Alveg ljóst að hún var á heimavelli þarna. Eftir það var hún klædd í aðra múnderingu utan yfir jassdressið, en það var ólýsanlega ljótur grænn ógeðissamfestingur í anda Dallas. Fórum svo með hana á KFC þar sem gæsin var að vinna í milljón sumur í gamla daga. Þar var hún líka á heimavelli. Hún rifjaði upp kjúklingataktana og afgreiddi nokkra kúnna með glæsibrag. Að því loknu og eftir að hafa skálað í kampavíni á KFC (kósý...!) var haldið í tívolíið í Smáralind og var gæsin sett í öll verstu (bestu??) tækin þar sem hún ásamt okkur skemmti sér konungleg. Ég og kúlan horfðum reyndar bara á enda allt BANNAÐ núna sem er skemmtilegt...(búin að röfla nóg um það svo ég held mig á mottunni hér). Eftir tívolíið var leiðin lögð í hljóðver þar sem gæsin var látin syngja og taka upp tvö lög - með herkjum en tókst alveg bærilega! Að því loknu var farið í sund og svo út að borða og í stelpupartý þar sem djammað var fram á nótt. Svaka vel lukkað og skemmtilegt :)

Já, stórum stelpum finnst líka gaman að fíbblast!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker