<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 15, 2004

Magnað Mývatn 

Þá er ég komin aftur frá Mývatni. Þar var ég í 3 daga ásamt fleirum að syngja á Kórstefnu svokallaðri. Þarna komu saman 4 kórar eða um 160 manns og sungu Sköpunina eftir Haydn. Undir lék svo Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og 5 frægir einsöngvarar voru líka í stóru hlutverki, Gunnar Guðbjörnsson, tenór, Hulda Björk Garðarsdóttir,sópran, Margrét Bóasdóttir,sópran, Bergþór Pálsson, bariton og Jóhann Smári Sævarsson, bassi. Stjórnandi var sá sexí gæi Guðmundur Óli Gunnarsson. Í alvöru, við stelpurnar í Kammerkór Hafnarfjarðar vorum að missa okkur yfir honum á köflum....

Og vá hvað þetta var gaman. Og flott hjá okkur! Ég hef nú hingað til ekki verið ýkja mikill unnandi klassískrar tónlistar (nema þeirrar kórtónlistar sem ég syng sjálf með í!) og hef beisikklí ekki mikið tónlistarvit, en úff hvað þetta er magnað verk og enn magnaðri flutningur! Óratorían Sköpunin er s.s. samin á 16. öld og tekur 2 klst. í flutningi. Hún fjallar um texta Biblíunnar er Guð skapaði heiminn. Sköpunin er talin ein allra vinsælasta óratoría heims, þar sem glæsileg tónlist lýsir á mjög myndrænan hátt, sköpun himins og jarðar, ljóss og myrkurs, lands og sjávar, dýra og jarðargróða og síðast manneskjunnar. Og að heyra sinfóníuna t.d. spila allra fyrstu sólarupprás heimsins er bara mögnuð upplifun. Fær mann næstum því til að gráta svo fallegt er það. Og svo 160 manna geggjaður kór undir... ah. Alveg frábært (og þetta er sko ekki óléttuvæmnin að tala!!)

Krakkinn í kúlunni hefur sjaldan hreyft sig eins mikið og þessa helgi, enda var hann á ca. 6 tíma æfingum á Sköpuninni á dag og svo á balli eða skemmtun eftir það. Rannsóknir hafa víst sýnt að ef það er sungið fyrir börn í móðurkviði róist þau frekar við þau lög þegar þau eru komin í heiminn. Ég segi nú bara að þá hljóti þetta barn að róast við Haydn! Ef ekki það þá veit ég ekki hvað! En þetta er nú ekki það mest rólega og sefandi verk svo maður veit ekki... en alla vega hlýtur það að verða tónvisst eftir allt saman! Segi svona...

Á föstudeginum héldu kórarnir 4 (Kammerkór Hfj, Bústaðakirkjukór, Kór Egilsstaðakirkju og Kór Akureyrarkirkju) tónleika þar sem þeir fluttu hver sitt prógramm. Við unnum það að sjálfsögðu, vorum flottust (ok... þetta var ekki keppni!). Á föstudagskvöldinu var svo Hlöðuball hjá Vogabændum þarna á Mývatni og það var mjög gaman, ekta sveitahljómsveit hélt uppi fjörinu og maður náði að taka nokkur dansspor þrátt fyrir þungann. Á laugardagskvöldinu var svo hátíðarkvöldverður þar sem allir kórarnir og einsöngvarar komu saman og átu á sig gat og skemmtu hvor öðrum með atriðum. Kemur á óvart að öll atriðin voru söngatriði...!? hmmmm... svona er þetta.
Haydn tónleikarnir sjálfir voru svo á sunnudeginum. Þeir voru þrusugóðir og ég hlakka til að fá þá á geisladisk og heyra, en þeir voru teknir upp.

Ég er svo ánægð með mig að hafa byrjað í Kammerkórnum. Ég hreinlega elska að syngja með þeim. Nú er komið sumarfrí, en ég ætla að halda áfram í haust.

Ég er stolt af því að vera kórnörd!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker