<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 03, 2004

"Vanfæra" skellibjallan ég 

Ætli það væri ekki rétt að segja að ég væri frekar spontanious pía. Skellibjalla heyrði ég einhvern segja að ég væri. Ég veit. Ég er bara þannig. Og fólk heldur yfirleitt að ég gleymi að hugsa áður en ég tala - en í alvöru - það yfirleitt ekki satt! Ég er eiginlega alltaf búin að hugsa það sem ég ætla að segja. Ég bara ætlaði að segja það samt. Ef þið skiljð mig!

En ég lenti soldið í því síðustu helgi í útskriftarpartýinu hennar Beggu. Þar sátu tveir drengir og röbbuðu við okkur um lífið og tilveruna. Annar þeirra minnti mig svo sterklega á einhvern sem ég hafði séð áður eða þekkti. Hver var þetta? Hmmm... ég hugsaði og hugsaði en mundi það ekki. Minnið ekki alveg að gera sig þessa dagana (óléttan sko). Jú, svo laust því niður í hausinn á mér! Þessi gæi líktist þvílíkt pólfaranum Haraldi Erni. Hetju Íslendinga og allra fjallafara. Svo ég sagði það við hann, svaka ánægð með minnið á mér: "Dísös hvað þú ert líkur Haraldi Erni Everest gæja"! Og hann svaraði: "Ég er hann". Ha, ha. Þetta var bara fyndið. Þetta var hann! Brandari kvöldsins. Samt voru þeir sko ekki aaaalveg eins. Það vantaði á hann alskeggið og klakann í skeggið og dúnúlpuna og íslenska fánann... En jæja. Ég var í partýi með pólfaranum, ligga ligga lái.

Já, annars er skammtímaminnið á mér ekki alveg upp á fulle fem þessa dagana. Ég hreinlega veit ekki af hverju. Er kannski að tala um eitthvað voða mikilvægt...missi þráðinn og man ekkert hvað ég var að ræða. Þarf að setja allt - og þá meina ég allt - í reminderinn á gemsanum mínum. Setti meira að segja "hengja upp þvott" í reminderinn um daginn og "kaupa í matinn". Alveg klikkað. Ég hef heyrt að margar óléttar konur verði eitthvað utan við sig á meðgöngu og að skammtímaminnið sé ekki upp á marga fiska en ég hélt nú ekki að þetta ætti við mig! Ó, nei! Ég er með súperminni! Límheila eins og Viggi kallar það. Not anymore.

Ég sendi fyrirspurn um þetta problem á www.doktor.is "Ég hef heyrt að óléttar konur finni fyrir því á meðgöngu að skammtímaminnið hjá þeim verði verra en áður (þegar þær eru ekki óléttar). Er eitthvað til í því og hvað er það sem veldur?" - og fékk eftirfarandi svar:

"Þetta er oft sagt og þar með verið að gera lítið úr konum. Hið rétta er að konur verða gáfaðri við barneignir og á meðgöngu verða tengingar innan heilans öflugri en á öðrum tímum. Það sem líklega veldur því að konur virðast gleymnari er að þær eru mjög uppteknar af meðgöngunni og minniháttar atriði vilja því oft verða útundan. Svo getur þreyta spilað inn í - sé manneskja þreytt (hvort sem er ólétt eða ekki) þá bregst skammtímaminnið frekar."

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir

Mér finnst þetta alveg skrýtið svar! Eins og gellan sé í geðveikri vörn fyrir óléttar konur. Mér fannst þetta eitthvað svo skringilegt svar..."verið að gera lítið úr konum"...hmm... ég veit það ekki. Læknar og alvitringar out there (Kolla vinkona!) - er einhver líffræðileg skýring á þessu? Ég get ekki sagt að ég hafi verið utan við mig út af þessari óléttu þar sem ég hef iðulegt gleymt því að ég væri ólétt og verulega lítið fundið fyrir þessu. Svo eitthvað annað hlýtur það að vera. Eða þá að ég sé bara að heimskast upp!

Talandi um að vera ólétt. Í fréttunum um daginn var talað um "vanfæra" konu. Gvuð. Ég fék alveg áfallið. Þetta er eins og að vera hreinlega vanhæf, eða ófær um eitthvað. Hrikalegt orð að mínu mati. Vanfær um hvað? Samþykki þetta ekki. Reyndar finnst mér ófrísk og ólétt líka eitthvað ekki góð orð, eins og maður sé lasinn eða of feit. Þunguð - of háfleygt. Bomm...neee. Einhverjar upástungur?

Þangað til ég finn eitthvað betra held ég að ég verði bara með "barn í mallanum".

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker