<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, desember 22, 2003

Gjafir 

Mér finnst gaman að gefa gjafir. Hvenær sem er ársins í raun. Mest gaman að gefa svona surprise gjafir. En líka við ákveðin tilefni. Þá reynir maður að finna gjöf sem hentar þeim sem á að þiggja hana. Samt er ég svakalega gjörn á að kaupa eitthvað sem mig sjálfa langar í - og hugsa þá lítið út í þann sem þarf að púkka upp á minn oftar en ekki óvanalega smekk. Og svo eru það jólagjafirnar. Þá þarf maður að leita að milljón "skyldu" gjöfum sem allar mega helst ekki fara yfir 2-3000 kallinn því það þarf að gefa svo margar gjafir. Og það getur verið erfitt, því þegar maður þarf að gefa gjöf þá er einmitt svo erfitt að finna þær. Alveg dæmigert. Það gekk þó vel þessi jólin, enda byrjaði ég skipulagða jólagjafaleit miðaða að hverjum og einum um miðjan nóvember. I know - ég er skipulagsfrík.

Gjafir minna mig alltaf á mannfræðina. Fyrstu önnina í inngangi í mannfræði var okkur kennt ýmislegt um fræðin á bak við gjafir. Þ.e. mannfræðina á bak við gjafir. Og þetta hefur alltaf setið í mér - og virkilega gert mér það erfiðara fyrir að finna hina réttu gjöf fyrir hvern og einn. Já, elsku mannfræðin mín hafði lúmsk áhrif á mann.

Gjafir samkvæmt mannfræðinni túlka nefninlega félagsleg samskipti og tengsl. Gjafir opna og skapa tengsl á milli fólks. Það er því alls ekki sama hvað hverjum er gefið, því gjöfin segir alltaf eitthvað. Hefur mikla merkingu. Og það eru ákveðnar félagslegar reglur á bak við þessa gjafapælingu = 1) skyldan að gefa 2) skyldan að þiggja 3) skyldan að endurgjalda. Endurgjaldið er nauðsynlegt til að samskipti haldi áfram að að þróast á milli fólks og til að það haldi áfram að vera vinalegt. Ég meina, þetta meikar fullt af sens. Ef ég myndi gefa þér fína gjöf sem ég hafði lagt mikla hugsun í og myndi aldrei fá neitt frá þér í staðinn, þá alls ekki neitt - ekki koss, ekki faðm, ekki kaffi og smákökur, bara alls ekki neitt - þá myndi ég nú verð doldið fúl og ekki víst að ég myndi fíla þig eins vel og áður. Yrði fyrir vonbrigðum. Því gjafareglan var brotin!

Marcel Mauss (já, vá - get ennþá vitnað í helstu spekingana) setti fram þá kenningu að engin gjöf væri "hrein" og óeigingjörn. Að maðurinn búist alltaf við og vilji fá gjöfina endurgoldna á einhvern hátt. Sem ég held að ég taki undir. En svo kom fram einhver indversk kona sem gagnrýndi Mauss og sagði að hin ómengaða gjöf væri til, t.d. gjöf frá móður til ungabarns, að hafa barn á brjósti. Já, það er spurning. Hægt að velta sér mikið upp úr þessu ef maður hefur áhuga á. Móðir gefur barni brjóst og ætlast kannski til að barnið elski hana í staðinn? Verði háð henni og sýni henni virðingu. Og þá er gjöfin ekki ennþá "hrein".
Svo kom fram annar karl sem tók ölmusuna sem dæmi um ómengaða gjöf. En á hinn bóginn getur maður svo spurt sig hvort að fólk gefi ölmusu til að þess bíði kannski hugsanlega betra líf á himnum?

Umbúðirnar geta líka verið afar táknrænar. T.d. í Japan er víst ekki sama hvernig gjöfinni er pakkað inn. Það er víst auðveldlega hægt að gefa röng og slæm skilaboð í gegnum umbúðapappír og pakkningu þar.

Já, gjafamál eru ekki einfalt mál!
Eins gott að vanda sig :)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker