<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, desember 14, 2003

Brúðkaupspælingar 

Ég er svo stolt í dag. Fórum í mat til vinafólks okkar sem er að fara að gifta sig næsta sumar og þau báðu mig um að vera veislustjóra! Alveg svakalega er ég stolt af því og ánægð með það traust sem þau sýna mér. Er strax byrjuð að plana þetta í huganum. Þau leggja upp með að þetta verði ekki brúðkaupssýning a la Skjár Einn, heldur óformleg gleðiveisla þar sem allir skemmta sér. Svona garden party. Búið að panta hljómsveit og grill og verður veislan í hinum fögru sveitum Hafnarfjarðar – Garðarholti. Þetta verður æðislegt. Ég sagði þeim að ég yrði ábyggilega ekki fyndinn veislustjóri (maður er bara ekki svo fyndinn…) en ég gæti verið sniðug. Er strax komin með nokkrar góðar hugmyndir.

Spurning hvenær maður fær sjálfur að halda brúðkaupsgleðigardenpartý? Ég veit það ekki, er búin að vera með Vigganum í 11 ár og það hefur verið frábær tími og í raun allt gengið eins og í sögu. Við höfum haldið billjón partý og veislur fyrir alls konar tilefni, bara ekki þetta. Ennþá. Gifting hefur almennt ekki verið stórt atriði fyrir okkur. Kannski fram að þessu, því unanfarið hefur mig virkilega langað að eignast kappann í lítilli sætri kirkjuathöfn með vinum og fjölskyldu. Höfum aldrei trúlofað okkur þó þögult loforð um trú liggi fyrir báðum. Ég viðurkenni sem sagt að að ég er að bííííða eftir bónorðinu því mig langar að eiga þetta ævintýri með honum. Reyndar þegar við bjuggum í mörg ár á Njálsgötunni eigi stutt frá Hallgrímskirkju á árum áður, bað hann mig oft hálfsofandi á laugardags- og sunnudagsmorgnum um að giftast sér. Bara svona kósí uppi í rúmi, þegar kirkjuklukkurnar sungu svo svakalega happí. Við heyrðum alltaf í þeim heim. Svakalega fallegt. Ég sagði já í hvert sinn. En hvíti kjóllinn, kransinn, vinirnir og játningin er eftir. Draumurinn. Veruleikinn.

Vinkonurnar segja mér að fara á hnén (þær skynja óþolinmæði mína ansi sterkt!) en ég er svo gamaldags að ég gæti það ekki. Sorrý, það er bara hlutverk karlmannsins. Þótt það sé alls ekki hlutverk mitt að vera heima með börnin í eldhúsinu. Ó, neits. Ætli í mér sé ekki bara þessi þessi endalausi leikur sem er í konum, að vilja láta ganga á eftir sér.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker