<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Fell og fjölskylda 

Fell er sumarbústaður tengdó uppi í Elífsdal í Hvalfirði. Hann er skírður eftir bænum sem Helgi tengdó ólst upp á fyrir vestan rétt hjá Tálknafirði. Já, hann og 16 systkini! Já, þau voru 17 stykki samtals. Tengdó var næst yngstur og þá var fjölskyldan hans nýflutt úr torfbænum þegar hann fæddist 1941. Elstu systurnar saumuðu nýja roðskinnsskó á hverjum degi á alla fjölskylduna úr steinbítsroði. Og yngri strákarnir gengu í kjólum af eldri systrum sínum. Þau hjálpuðust að til að lifa af. Já, sú var tíð.

Viggi og systkini hans eru 6 talsins. Mér finnst það hetjulegt í dag. Það þarf 6 manna bíl, s.s. mini-bus, ja, eða 2 venjulega bíla til að fara í ísbíltúr, kaupa 6 íþróttagalla, 6 fótboltaskó, borga tómstundir undir 6 krakka og passa að 6 krakkar hafi það félagslega og andlega fínt, gangi vel í skólanum og byrji ekki að reykja. Sex. Sjæt. En um leið er alltaf einhver til að tala við, alltaf einhver til að redda, skutla, hlæja með og gráta á öxl.

Maður á nóg með að hugsa um að eignast kannski einhvern tímann ef til vill eitt stykki, hvað þá meira. Er það aumingjaskapur?

En aftur að Felli. Systkininn sex hafa ákveðið að taka höndum saman til að gera fjölskyldustoltið Fell ennþá fínni en það nú þegar er. Viggi reið á vaðið með að kaupa harðgerð Birkitré núna í sumar (sem tákn um sterka fjölskyldu) en svo skiptast systkinin á næstu árin að kaupa tré til gróðursetningar. Hver fjölskyldumeðlimur, börn og barnabörn, gróðursettu sitt tré og úr varð hinn fínsti trjálundur sem Viggi nefndi réttilega Víglund! Svo er kominn á fót söfnunarsjóður fyrir Fell þar sem hvert systkin lætur smotterí af hendi rakna á hverjum mánuði. Svo á hverju sumri verður keypt eitthvað sem vantar fyrir Fell eða gert við ef þarf. Markmið sjóðsins er að kaupa heitan pott sem á án efa eftir að verða að veruleika innan fárra ára.

Já, fjölskyldukrafturinn er sterkur nú sem þá.
Nokkur stykki kids eru málið :)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker