<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 18, 2007

Hugmyndaríkið 

Ég var að panta mér tíma í klippingu og litun. Ég er orðin ansi upplitun og hippaleg og á tíma eftir 2 mánuði. Ég þorði ekki annað en að vera snemma í því upp á brjálæðislega jólaörtröðina heima. Svo pantaði ég líka litun og plokkun og tíma hjá tannréttingalækni. Mér líður illa í tönnunum. Tannsinn minn sagði mér fyrir nokkrum árum að fara í tannréttingar og ég fór í einn skoðunartíma til að láta athuga stöðuna á skoltinum á mér. Sá tannréttingalæknir sagði prósessinn taka a.m.k. 2 ár og ég man ekki upphæðina en ég man mér fannst hún stjarnfræðilega há. Ég hafði sett mér limit upp á 150 þús kall og 1 ár... Það sem fældi mig líka frá þessu þá var að tannsinn var alltaf að skjóta inn kommentum um hvað þetta hefði nú líka mikla fagurfræðilega þýðingu fyrir mig. Ég yrði með mun fallegra bros og bara allt önnur manneskja. Ég saknaði strax skökku augntannanna og bara hætti við allt saman. En það er víst komið að því að athuga þetta í annan gang, ég bara finn það, þetta er eitthvað skrýtið. Og svo verð ég jú líka miklu sætari, verð víst að sætta mig við það. Sem sagt meikover. Það er alveg spurning hvort þið munuð þekkja mig þegar ég hitti ykkur næst.

Í allri umræðunni um það hvað ég á að verða þegar ég kem heim og þegar ég verð stór kom félagi minn með tillögu að því að ég yrði "vídeóblaðamaður". Mér líst alls ekki illa á þennan spennandi starfstitil hvað sem hann nú ber með sér, en það væri án efa hægt að gera skemmtilega sketsa um hversdagslega hluti heima og bera fram á öðruvísi hátt. Ég er nú þegar með fullt af hugmyndum. Í kjölfarið kíkti ég á sviðsljósið á mbl.is með Ellý (var að heyra af því) og æi hvað það er nú ekki skemmtilegt. Hrikalega frægt og innantómt eitthvað. Ekki mín hugmynd um góða vídeóblaðamennsku. En þetta er samt flottur titill. Kannski ég fari og geri heimildamyndir í frístundum, en ég og ein vinkonan lumum þar einnig á nokkrum hugmyndum. Æ, hvað það er samt gott að eiga hugmyndir. Maður fær þó hugmyndir þótt það verði kannski lítið úr þeim. Kannski verður einhvern tímann eitthvað úr einhverju. Eins og til dæmis hugmyndin að því að skrifa bók. Sem verður kannski að einhverju meiru ef ég verð dugleg. Ég hringdi í bókaforlag í dag og þeir vilja fá handrit til að skoða og meta hvort ég sé útgáfunnar virði. Úbsí, ég vissi ekki að maður þyrfti að skrifa bókina fyrst og svo sjá hvort maður fengi hana útgefna eða ekki. Ég reyni kannski við fyrsta kaflann og sendi og athuga stöðuna. Ef þið eruð með sambönd í bókaforlögin endilega látið mig vita!

Hugmyndir já. Koma og fara. Ég veit nú ekki hvort ég sé hugmyndarík en ég þakka fyrir að fá alla vega hugmyndir, hversu vondar sem þær geta verið. Það er oftast ein góð sem laumast með inn á milli. Ég elska til dæmis að breinstorma eftir lausnum, þá fær maður milljón útópískar ógerlegar hugmyndir þangað til maður finnur þá réttu að lausninni. Ég veit hreinlega ekki hvort það var mín hugmynd að skrifa bók um reynsluna hér eða hver það var sem sagði mér að prófa. Þegar ég var lítil stúlka (ég var einu sinni lítil, alveg satt) skrifaði ég í minningarbækurnar að mig langaði að vera rithöfundur og söngkona. Flestar stelpurnar vildu verða flugfreyjur, hárgreiðslukonur og hjúkkur. Ég söng með Witney Houston og í hárbustann fyrir framan spegilinn og skrifaði mikið af sögum og ljóðum. Ég skrifa stundum ennþá ljóð. Geymi þau í skúffunni, þau eru svona prívat tilfinningaopinberun sem ég svakalega feimin við að meira að segja lesa sjálf. Ég ákvað svo á óléttunni fyrir 4 árum að ég vildi skrifa bók í fæðingarorlofinu. Það var sem sagt þegar ég vissi ekki að fæðingarorlof væri ekki frí heldur erfið vinna þar sem maður er óútsofinn með bauga og stjórnað af hormónum. Og auðvitað varð ekkert úr þeim skrifum. Ekki frekar en að lesa allar bækurnar sem ég hafði sparað að lesa fram að orlofi og læra af sjálfsdáðum á gítar á meðan barnið svæfi. Right.

Hér úti í Níka hef ég verið dugleg að lesa, alla vega miðað við mig. Búin að hamstra hva, 4 bækur frá því ég kom. Yfir kertaljósi á kvöldin í rafmagnsleysinu. Maður dettur alveg inn´i bækurnar þannig. Barnið farið að sofa, kallinn líka að lesa eða á fótboltaæfingu, ekkert sjónvarp, ekkert net, og ekki æskilegt að fara út í myrkrið. Flugdrekahlauparinn hélt mér vel og gaf mér hugmynd um ókunnugan heim, Alkemistinn sagði mér hvernig maður stýrir sjálfur sínum örlögum, með því að velja, með því að vinna og með því að trúa á sig. Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn gaf mér pepp og vonandi innri ró þótt ég sé lítið fyrir jógað og Viltu vinna milljarð tók mig með sér aftur til elsku Indlands í svakalega skemmtilegri frásögn. Svo var ég að byrja á Sölku Völku...

Já, þessi lestur er góð þjálfun fyrir verðandi bókina „Súkkulaðikleina í Nicaragua“.
Eða hvernig líst ykkur annars á titilinn sem ég var að finna upp á rétt í þessu? Allar hugmyndir varðandi bókarskrif og útgáfu vel þegnar!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker