<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, október 15, 2007

Eldfjallaferð milli gusa 


Jæja, helgin að baki og vonandi rigningarnar líka.

Hér hefur rignt nánast stöðugt í rúma viku og ég get sagt ykkur að það er ekki gaman! Því þegar það rignir hér, þá RIGNIR. Allt er á floti og ekkert hægt að gera. Ok, ég er reyndar ekki orðin heimilislaus og komin með sjúkdóma og geng um í blautum fötum eins og flestir fátækir en æi ég hlýt að mega kvarta smá við ykkur. Í rigningunni er lítið hægt að gera, nema hanga heima og í mollinu, gaman. Og þegar við Vera erum búnar að hanga í hengirúminu, horfa á teiknó, leika með dýrin og lita í latabæjarlitabókinni fer eirðarleysið að segja til sín. Þetta er önnur helgin okkar hér sem við förum ekki út fyrir bæinn og gerum eitthvað skemmtilegt vegna veðurs og æi hvað ég hlakka til að hanga ekki heima komandi helgi. Þá skal vera hætt að rigna. Kannski það sé meðvitað verið að æfa mig fyrir heimferðina, kalt (24 í stað 34°c) rakt, dimmt og drungalegt.


Við reyndar náðum í dag að fara upp að Masayaeldfjallinu á milli gusa og það var eins og að vera komin heim! Hraun, mosi, fölnaðir litir sökum eiturefnanna úr fjallinu og lágvaxin lauflaus tré. Eldfjallið er ennþá virkt og það bubblar og sýður ofan í því. Nicaragua á fullt af virkum eldfjöllum og það eru nokkur hér nálægt höfuðborginni. Vera var svakalega dugleg í leiðangrinum og gekk alla leiðina upp sjálf, ok, það var ekki svo langt en samt. Hún var svaka spennt fyrir eldfjallinu og talaði um það allan daginn, að hún yrði nú að segja stelpunum á Hjalla frá þessu og ömmu Gunnu. Vorum svo alltof bjartsýn eftir vel heppnaða eldfjallaferð og skelltum okkur í sund og náðum 7 mínútum áður en það byrjaði aftur að rigna... Vera og Viggi fíla sig nú samt í ískaldri lauginni í hvernig veðri sem er, en það virðist vanta einhverja einangrun á mig til að fíla það svo þessi sundferð var stutt í dag.


Sem sagt ekkert spes að frétta héðan, hversdagsleg níkahelgi í rigningu. Svona svipað og heima býst ég við. Skruppuð þið ekki annars upp á eldfjall?









Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker