<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 18, 2007

Alvara Níkalífsins 

Lífið hér er víst ekki bara strönd og góðir kokteilar.
Nono.

Hér er enn verið að berjast við eftirmála Felix á Atlantshafsströndinni með neyðaraðstoð og m.a. verið að safna peningum, fötum, mat og svörtu plasti til að senda austur. Það eru auglýstar safnanir hér og þar af prívat samtökum og tónleikar til styrktar fórnarlömbunum. Mér skilst að stjórnvöld hafi víst ekki enn gefið út formlega beiðni um aðstoð sem stoppar mörg samstarfslönd í að geta gefið neyðarpeninga í aðstoðina. Kannski er verið að ræða málin, kannski þorir enginn að hreyfa sig af ótta við að vera rekinn, kannski er forsetafrúin upptekin við annað mikilvægara hvað svo sem það er, en sumir segja hana þurfa að samþykkja velflest sem gert er. Hún sé í raun valdameiri en karlinn sinn hann Daníel.

Fyrir utan það að margir dóu og slösuðust, eru enn fleiri heimilislausir eða eiga tætt hús án þaks, fullt af vatni. Fólk er í blautum fötum og er dauðhrætt þegar það rignir. Það eru samt bara venjulegar rigningar eins og voru fyrir bylinn, svo sálfræðileg áhrif þessa hamfara eru líka mikil. Skólar eru óstarfhæfir og það verður án efa erfitt að fá krakkana aftur til að byrja í skólanum þegar þar að kemur. Það er talað um alla vega 2 ára uppbyggingartíma eftir svona disaster. Þetta er rosalegra en maður getur ímyndað sér.

Nú, svo hefur Nicaraguanska þingið nýverið staðfest algjört bann við fóstureyðingum sem hér var lögleitt sl. haust. Læknar mega ekki einu sinni eyða fóstri af læknisfræðilegum ástæðum eins og til dæmis ef börn verða ólétt og ef kona er með utanlegsfóstur. Þá verður bara að leyfa barninu að vaxa og deyja og væntanlega konunni líka.

Orkumálin eru nú í einhverjum enn meiri skandal en áður og rafmagnsleysið bara eykst með hverri vikunni. Ég skil skandal gærdagsins ekki til hlýtar en hann snýr víst að því að orkufyrirtækið hér gerði einhvern samning eftir útboð við eitthvað skringilegt fyrirtæki sem enginn hefur heyrt um og er kannski jafnvel ekki til. Einhverjir segja vini forstjórans jafnvel skrifaða fyrir þessu meinta fyrirtæki sem skráð er í Panama en auðvitað neitar forstjórinn öllu og lýgur í beinni í fréttunum og allt. Bara blákalt. Já, þessi skandall lak í fréttirnar en hvað ætli margir skandalar geri það ekki?
Ef þetta er lausnin á raforkuvanda landsins mun líklega bara myrkva enn meira á næstunni.

Já, svona er lífið sem sagt líka í Níka.
Myrkur í sólinni.
Þyrnar í sandinum.
Alvara bakvið salsataktinn.

Ég frétti að heima sé víst rigning og grámyglulegt.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker