<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

9 ára verðandi móðir 

Í mæðrahúsinu „okkar“ í Bluefields dvelur nú 9 ára ólétt stúlka.

Fjölmiðlar í Níkaragúa hafa undanfarna daga sagt frá máli ungrar stúlku sem var misnotuð af frænda sínum og er nú ólétt. Stúlkan kemur frá El Tortuguero sem er afskekkt þorp á Atlantshafsströndinni. Málið komst í fréttirnar hér er móðir stúlkunnar kærði misnotkunina til yfirvalda í Bluefields. Áður hafði hún tilkynnt atburðinn til lögreglunnar í heimabæ sínum í maí en þar fékk málið ekki hljómgrunn. Í eyrum sumra þykir slík misnotkun kannski ekki svo merkileg. Þetta er því miður skuggalega algengt.

Stúlkan unga er nú komin 5 mánuði á leið og ferðaðist með móður sinni þriggja daga leið til Bluefields sem er höfuðstaður Atlantshafsstrandarinnar. Þær fór fótgangandi og á bát. Yfirvöld í Bluefields sendu mæðgurnar á spítala bæjarins þar sem stúlkan gekkst undir mæðraskoðun. Læknar segja líkama stúlkunnar náttúrulega langt í frá tilbúinn undir meðgöngu og því sé meðgangan bæði erfið og geti verið skaðleg heilsu hennar, jafnvel lífshættuleg. Spítalinn hefur ekki aðstöðu til að hýsa stúlkuna og því var hún send í mæðrahúsið í bænum. Þar mun stúlkan dvelja fram að fæðingu. Bygging mæðrahússins í Bluefields var fjármagnað af Þróunarsamvinnustofnun og var einmitt opnað nýlega.

Ofbeldismál sem þessi eru ekki óalgeng í Nicaragua.
Þetta er svo hræðilegur atburður.
Ímyndið ykkur litlu 9 ára frænku ykkar eða dóttur. Maður getur það ekki og verður flökurt. Og það sem meira er að þessar stúlkur hér sem verða þungaðar í kjölfar misnotkunar eiga ekki einu sinni möguleika á því að fara í fóstureyðingu hér því nýju fóstureyðingarlögin sem voru samþykkt í október á síðasta ári banna fóstureyðingar með öllu og taka einnig fyrir eyðingu fósturs af læknisfræðilegum ástæðum. Já, hér hefur kaþólska kirkjan kyrkingartak á samfélaginu. Mannéttindi litli stúlkunnar eru engin. Réttur hennar til að vera barn er náttúrulega löngu farinn og möguleikinn á að jafna sig og ná þó ekki sé nema sálrænni heilsu er ekki leyfilegur. Fóstureyðingarlögin eru það ströng að heyrst hefur að læknar þori oft ekki einu sinni að sinna ófrískum konum sem er byrjað að blæða eða eiga við annars konar vandamál á meðgöngunni að stríða.

Móðir stúlkunnar segist þurfa að snúa fljótlega aftur til síns heima þar sem þar bíði hennar fleiri lítil börn til að hugsa um. Litla stúlkan verður því skilin ein eftir og segjast yfirvöld ætla að reyna að finna einhvern til að sinna stúlkunni í fjarveru móður hennar.

Já, þetta er sorglegt mál og í raun lítil huggun í því að vita að stúlkan dvelji í mæðrahúsinu í Bluefields þótt það sýni okkur að starf okkar hér hafi tilgang. Ef ekki væri fyrir mæðrahúsið í Bluefields fengi hún enga þjónustu og ætti ekki í önnur hús að venda.
En því miður eru það ekki við sem getum nú haft áhrif á örlög lífs hennar, heldur bara lögin.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker