<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Húshjálpin mín 

Draumur minn hefur ræst!

Í íslenska hraðanum og velmeguninni er æ algengara að fjölskyldur kaupi sér utanaðkomandi aðstoð til að þrífa heimili sín kannski tvisvar til þrisvar í mánuði. Ég hef alltaf sagt að ef ég mætti velja á milli þess að láta einhvern þrífa hjá mér eða eiga möguleikann á að fá mér eldabusku myndi ég hiklaust velja það síðarnefnda. Helst bæði samt, en það að fá tilbúinn mat án þess að þurfa svo mikið sem hugsa út í það glorhungraður og þreyttur á hundavaði, er draumur.

Á Íslandi hef ég hingað til ekki tímt að greiða húshjálp sérstaklega fyrir heimilisstörfin og frekar ákveðið að launa sjálfri mér á einhvern hátt fyrir vel unnin störf. En ég sé það núna að ég er nískupúki. Virðið í aðstoðinni er svo margfalt peninganna! Mér finnst óhemjuleiðinlegt að taka til en vil samt hafa hreint og fínt í kringum mig, þoli ekki drasl. Ég fer ekki að sofa án þess að þvotturinn sé samanbrotinn og húsið í nokkuð góðu ásigkomulagi. Það þýðir að kvöldin hafa farið meira og minna í tiltekt og slíkt, því ekki tímir maður dýrmætum tímanum eftir vinnu í þessa hundleiðinlegu iðju. Þá er maður líka að bagsa við að koma mat á borð sem kostar nú heilmikla vinnu með þriggja ára áhugasama og athyglisþurfandi dömu hangandi í lærinu á sér. Tja, tja og sei sei, víst er að blessuð bústörfin taka sinn toll og mér finnst allt í lagi að kvarta yfir því og hana nú! Draumurinn væri að sleppa við þetta.

En ég kvarta eigi meir. Ég er komin með MAID í vinnu hjá mér. Alvöru lifandi ótrúlega duglega og hard working húshjálp. Hjálp er nefninlega rétta orðið yfir þetta. Hús-hjálp. Hvað með að kalla hana líka sálu-hjálp, þæginda-þörf, dekur-dömu, undra-undur eða hreinlega bjargvætt. Draumadís passar samt kannski best.

Þessi nýja heimilisást heitir Euniser og vinnur hjá mér 3 x í viku. Hún tekur til, þrífur hólf og gólf hátt og lágt, drepur skordýr, býr um rúm, brýtur saman þvott, skrúbbar klósett, raðar í skúffur og - haldið ykkur - eldar handa mér mat. Mín bíður tilbúin fullútilátin dýrindis níka máltíð þrisvar í viku og hún eldar nægilega mikið til að eiga daginn eftir líka. Já, ég sagði draumur.

Ég lifi lúxus lífi. Ég er jafnvel orðin svolítið svona "heima-löt". Ég vaska ekki upp, setti seríósdiskinn minn ekki í vaskinn í morgun og tók ekki hárin úr sturtubotninum eftir morgunsturtuna heldur. Draumur. Orkan mín fer algjörlega í mig og tíminn líka. Hvort sem ég vil lesa, horfa á Grey´s, hanga eða dansa þarf ég ekki svo mikið sem hugsa um heimilið eða mat. Euniser sér bara um þetta, sér um að hafa mig ilmandi glaða og sadda með fullt hús matar alla daga.

Og sorrí þið hin heima sem eigið ykkur einmitt svona draum um draumalíf. Ég veit þið hljótið að öfundast út í mig, en svona virkar systemið hér. Og ég fíla það! Ég á pening og ég skaffa atvinnu. Ég Á í raun að hafa vinnukonu, og 3 x í viku er lítið, flestir eru með eina slíka alla virka daga, plús það að hafa fulltime pössupíu. Ég er að reyna að fullvissa mig um það á hverjum degi að ég eigi þetta skilið því víst er þetta dulítið skrýtið. Að vera húsbóndi og eiga hjú. Aftur til fortíðar en samt til framtíðar. Ég reyni að hugsa ekki um að mér finnist Euniser ekki endilega eiga þetta skilið, en hún er jú líka hæst ánægð með nýju vinnuna sína. Að fá meðmæli frá útlendingi fyrir vel unnin störf virkar wonders fyrir hennar framtíð.

Ég stefni ótrauð á að innleiða þetta þægindakerfi inn í íslenskan veruleika þegar ég kem aftur heim, því varla verður aftur snúið svo einfalt verði...

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker