<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, júlí 29, 2007

Costa Caribe - fegurð og fátækt 

Það má í rauninni segja að Nicaragua skiptist algjörlega í tvo hluta.
Landfræðilega og menningarlega.

Ég hef ekki ennþá fjallað um sögulegar og landfræðilegar staðreyndir um Nicaragua og ætti í raun að byrja á byrjuninni og ræða um landið í heild sinni, en eftir ferðina á föstudaginn til Bluefields verð ég aðeins að segja ykkur frá þessum hluta landsins; Costa Caribe, Miskito Coast eða hreinlega Atlantshafsströndinni á Íslensku (don´t ask me why - Atlantshafið er þarna lengra frá). Costa Caribe er alls ekki dæmigert Nica þótt Nica sé. Hefðir þeirra og tungumál er öðruvísi og í raun hafa þeir lítil samskipti við vesturströnd landsins.

Nicaragua liggur sem sagt að sjó bæði vestan og austan megin og að austan liggur það að Karabískahafinu. Þar skiptist landssvæðið upp í tvö sjálfsstjórnarsvæði sem kallast RAAN og RAAS (Región Autónoma del Atlántico Norte/Sur). Þetta landssvæði er mjög stórt eða rétt tæplega helmingurinn af landinu öllu þrátt fyrir að aðeins um 10% þjóðarinnar búi þar. Í stuttu máli er þessi hluti Nicaragua allt annar heimur heldur en sá sem snýr að Kyrrahafinu og 90% þjóðarinnar býr. Margir segja Costa Caribe sem eins og annað land inni í Nicaragua og heimamenn þar með taldir. Costa Caribe er sá hluti Mið-Ameríku sem gleymist oft að sé til.


Á Costa Caribe er fátt fólk og það á sér sögulegan uppruna héðan og þaðan úr heiminum.
Spánverjar náðu ekki að leggja þennan hluta Nicaragua undir sig á nýlendutímanum, eins og hinn helming landsins og einmitt þess vegna er þetta annar heimur. Bretar vörðu landssvæðið fyrir Spánverjum með stuðningi innfæddra og vegna sambandsins við Breta og áður fyrr samgangi við breskar nýlendueyjar tala margir blöndu af ensku og þeirra eigin upprunalega tungumáli. Kreól kallast það. Reyndar eru mjög mörg tungumál í gangi, alls konar kreól og indjánamál ásamt spænsku og einhverjir tala ensku.
Að mestu leyti byggja umrædd svæði Miskito indjánar sem eiga uppruna sinn í Latnesku Ameríku og etnísku hóparnir Sumus og Ramas, en uppruni þeirra er að hluta til indjánar og að hluta til frá Afríku. Svartir eru einnig um 5% íbúanna, en afrískir innflytjendur sem villtust af leið á sínum tíma eða strönduðu settust þarna að ásamt þeim þrælum sem höfðu sloppið úr prísund eða hafði verið sleppt. Breskir, þýskir, franskir og hollenskir sjóræningjar sem með tímanum blönduðust einnig þjóðinni útskýra þau bláau augu og ljósu húð sem finnast þótt sjaldgæft sé. Í kringum 1800 var svo flutt inn vinnuafl úr ýmsum áttum í löndum í kring til að vinna á kókos og bananaökrum svo víst er að blandan er margbrotin.
En kokkteillinn er vel hristur og eftir nokkur hundruð ár í sátt og samlyndi getur útkoman ekki verið önnur en undursamlega fallegt og yndælt fólk - og sem ég get ekki ímyndað mér að kannist svo mikið sem við hugtakið rasisma!

Náttúra Atlantshafsstrandarinnar er er einnig af allt öðrum toga en þeim megin landsins sem ég bý. Þéttur og illgreiðfær frumskógur í takt við Amazon gerir landið afar erfitt yfirferðar og aðal-samgöngumátinn er á ám í gegnum frumskóginn á litlum bátum - og á fæti þess á milli. Erfiðar samgöngur gera það einmitt að verkum að til dæmis mæðra- og ungbarnadauði er gríðarlega hár á svæðinu. Það eru engir vegir á milli bæja og þorpa og mikið af fólki vel einangrað á sínum stað.

Óhætt er að fullyrða að þessi sérstaki landshluti Nicaragua sé undirorpið gríðarlegri fátækt.
Í fátæktinni kristallast svo slæm staða félagslegra og hagrænna þátta sem og afar lág lífsgæði á heildina litið.

Heimili fólks í RAAN og RAAS eru fæst með rafmagn, eða aðeins um 21% í RAAN og 28% í RAAS. Mjög algengt er að margar fjölskyldur búi saman aðþrengdar í pínulitlum heimagerðum húsum og rennandi drykkjarvatn er aðeins að finna í höfuðborgum svæðanna tveggja, Bilwi og Bluefields. Í fæstum tilfellum myndi það þó tæpast kallast öruggt drykkjarhæft vatn. Aðrir ná í vatn í ám og lækjum. Heilsufarsvandamál eru stór og ólæsi, ásamt menntun yfir höfuð, er einnig útbreytt vandamál. Þótt skólinn sé orðinn ókeypis með nýrri ríkisstjórn býr fólk það afskekkt að aðstæður til að komast til og frá skóla eru erfiðar, ef ekki ómögulegar, fyrir langflesta utan höfuðborganna. Langflestir búa það mikið út úr og langt frá alfaraleið að það er enga þjónustu, hvað svo sem hún gæti kallast, að fá.
Mig dauðlangar að ferðast um svæðið og vonandi fæ ég tækifæri til að fara eitthvað lengra heldur en bara til Bluefields. Þetta er svona ekta ósnortið og orginal svæði sem bakpokaferðalangann mig klægjar í að kanna. Að ferðast í marga klukkutíma í smábát á Río Grande með Veru er samt varla í boði. Kannski stutt vinnuferð, hver veit.

Já, vissulega fallegt og heillandi en líka fjötrað í fátækt.
Við erum að vinna í þessu.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker