<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 13, 2007

Go mamma! 

Þetta er nú ekki alveg réttlátt.
Að kona eins og mamma sé að lenda í þessum veikindum. Mamma er kona sem hefur alltaf hugsað um heilsuna, aldrei drukkið og djammað af neinu viti, hreyft sig reglulega, sefur nóg og kaupir matinn sinn í Fræinu í Fjarðarkaupum svo að hún borði nú örugglega hollt. En samt veikist hún. Maður ræður augljóslega engu.

Ég var að koma af bráðamóttökunni þar sem var brunað með mömmu í nótt vegna þess að hún var komin með hita sem er hreinlega banvænt fyrir sjúklinga eins og hana. Já, smá hitavella þýðir sýking og það er hættulegt. Hún er í raun miklu veikari en okkur (líka hana) óraði fyrir. Þrátt fyrir að tækla krabbameinslyfin vel og finna lítið fyrir áhrifunum af þeim mælast hvítu blóðkornin hennar í núlli sem segir okkur að varnarkerfi líkamans er ekkert. Hún var rannsökuð í nótt og svo sett í varnarEINANGRUN takk fyrir þar sem konan þarf að dvelja næstu 5 - 10 dagana. Það er ekki æskilegt að fá heimsóknir í varnareinangrunina en í neyð má maður fara inn í svona geimbúning sprittaður hátt og lágt! Já, svolítið óréttlátt. Eins og að vera settur í stofufangelsi fyrir eitthvað sem þú hefur ekki gert. Ég er á leiðinni uppeftir með tölvuna hennar, handavinnuna, bækur og allar seríurnar af Grace Anatomy! Hún á eftir að þrykkja út nokkrum flottum lopapeysum næstu dagana og upplifa ekta spítalalíf með sætum læknum í gerviheimi sápuóperanna hehe. Ekki það, ég hef aldrei séð þessa þætti. Ætti samt að hafa tíma til að detta í þá úti í Níka, maður á víst eftir að hafa dágóðan tíma fyrir sjálfan sig þar.

Já, það er svoleiðis allt að gerast á sama tíma núna. Mamma er að kaupa íbúð og selja íbúð og er svona veik. Eins var hún að skipta um vinnu og fara í draumastarfið sitt í ferðamálabransanum sem gengur augljóslega tæplega upp í þessu ástandi. Vonandi síðar samt. Ég mun því umbreyta mér í Gunnu Ax í þessum hlutverkum og ganga frá kaupum og sölu á fasteignum og standa í ýmis konar reddingum í sambandi við það. Það er nú minnsta málið.

Svo er það Nicaragua. Núna hugsa ég hvað í óóóósköpunum ég er aftur að fara að gera þarna eiginlega? Svo dofnar sú tilfinning og spenningurinn kemur aftur. Kvíði líka og fullt af áhyggjum. Ætli það væri ekki bara mun einfaldara og betra fyrir alla að ég væri heima - sú pæling líka. En hver sagði að þetta ætti að vera einfalt. Fór á fund í gær hjá ÞSSÍ þar sem ég sá m.a. mynd af litlu skrifstofunni sem ég mun vinna í úti og innlendu samstarfsfólki og allt varð svo real. Kannski of real í stöðunni.

Ég viðurkenni algjörlega að ég á erfitt með að einbeita mér að vinnunni í stöðunni, sem gerir jú kröfur til mín með að klára þennan síðasta mánuð með stæl, bæði með mína tilveru og mömmu á þessu líka svaka umbreytingarskeiði. Milljón trilljón hlutir að hugsa um og redda, í mínu, mömmu og vinnulífinu og enginn tími, hvað þá eirð.

EN GO MAMMA - svona rykgrímur fyrir vitin eru alla vega svakalega inn í Japan í dag :)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker