<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 21, 2007

Að breyta samfélaginu 

Ef þið misstuð af henni Margréti Pálu í Kastljósinu í gær þá mæli ég með því að þið kíkið á þetta núna.

Þessi súperkona er upphafsmanneskja Hjallastefnunnar sem ég get ekki lýst hvað mér finnst frábær. Að vinna með þessi fallegu mannlegu gildi sem skipta svo miklu máli, að hafa þau að leiðarljósi í öllum leik og öllu starfi er svo mikilvægt upp á það hvernig litlu krílin okkar mótast. Hvernig innri manneskjur þau verða. Að hafa virðingu og umburðarlyndi í fararbroddi í öllu sem gert er, að leyfa þeim að njóta sín í skapandi umhverfi og á sínum forsendum eru forréttindi. Hjallastefnan er að geta af sér litla snillinga sem ekki endilega eiga eftir að brillera einkunnalega séð heldur frekar með hjartanu, búa til fordómalaust kærleiksríkt jafnréttissamfélag. Draumur!

Hér má lesa um hluta stefnunnar fyrir áhugasama foreldra um menntamál ungviða sinna.

Jafnrétti:
Markmið Hjallastefnunnar er jafnrétti stúlkna og drengja og sem leið að þessu marki notum við kynjaskiptingu. Með því að hafa stúlkurnar og drengina á sitt hvorri deildinni tryggjum við báðum kynjum alla athygli kennara síns og gefum hvoru kyni um sig tækifæri til þess að leika sér og læra á sínum eigin forsendum án þess að hitt kynið trufli. Stúlkur og drengir á leikskólaaldri leika sér ólíkt, hafa ólík áhugamál, ólíka menningu og ólíka færni. Sem dæmi um þetta má nefna að stúlkurnar ná að jafnaði betra valdi á fínhreyfingum fyrr en drengirnir og í kynjablönduðu umhverfi verður þetta oft til þess að drengirnir bera sig saman við stúlkurnar, finna að þeir standa verr á þessu sviði og verða því afhuga leikjum sem krefjast fínhreyfinga s.s. teikningu, leir osfv. og fara að einbeita sér að hlutum sem þeira hafa betra vald á. Á sama hátt verða stúlkur í blönduðu umhverfi oft afhuga leikjum sem krefjast grófhreyfingar því þar standa þær yfirleitt verr að vígi en drengirnir. Í kynjaskiptu umhverfi er hitt kynið ekki til samanburðar svo að drengirnir okkar teikna, mála, leira, klippa og föndra af hjartans lyst og finnst þeir flinkir! Á sama hátt nota stúlkurnar okkar dýnustofuna til ærslaleikja og stunda útivist og hreyfingu af kappi þar sem drengirnir eru ekki til samanburðar. Með þessu ná bæði kyn að æfa færni sem öllu fólki er nauðsynleg og mikilvæg án þess að þurfa nokkurntíma að “láta í minni pokann” fyrir hinu kyninu. Endanlegt markmið með kynjaskiptingunni er síðan auðvitað farsæl blöndun kynjanna og það æfum við með reglulegum samverustundum og þá forðumst við að hafa verkefni sem henta betur öðru kyninu, heldur leggjum allt kapp á að hafa gaman til þess að börnin hlakki til samvistanna og finnist eftirsóknarvert að hittast.


Agi - skýr rammi
Markmið Hjallastefnunnar er að börnin læri aga og leið okkar að þessu marki er fyrst og fremst skýr rammi. Í agalausu umhverfi þar sem allir haga sér eins og þeim sýnist verður alltaf einhver sem treðst undir og réttur þess sterkasta ræður á kostnað hinna. Hjallískur leikskóli setur skýran ytri ramma þar sem dagskráin gengur eins fyrir sig á hverjum degi, fáar en skýrar samskiptareglur eru fyrir hendi, börnin ganga í röð og skiptast á í stað þess að troðast og sýnilegar merkingar eru til staðar á þeim stöðum þar sem ætlast er til að börnin gangi frá sjálf. Þessi ytri rammi er svo einfaldur og skýr að yngstu börnin læra á hann á fáum dögum og sá sem kann á umhverfi sitt er frjáls. Mat Hjallastefnunnar er að frelsi felist ekki endilega í því að gera alltaf það sem mann lystir heldur að vita nákvæmlega hvað er í boði og hvað ekki og gera svo það sem lystir innan þeirra marka.


Viðhorf - gleði, jákvæðni og ábyrgð
Börn eru að jafnaði lífsglatt og skemmtilegt fólk og það sem gerir leikskóla fyrst og fremst að Hjallaleikskóla er að gleðin skipar þar öndvegi. Við ræktum gleðina með því að kenna jákvæðni og hvetja börnin til þess að taka ábyrgð á viðhorfum sínum og framkomu. Sem dæmi má nefna eftirfarandi setningu:„Ái! Ég er í kremju!". Þess í stað getur hún hljómað: „Viltu færa þig svo ég fái pláss, kæri vinur". Ef barn segir kvartandi: „Mér er kalt" er gjarnan spurt á móti: „ … og hvað viltu gera í því?". Þá kemur svarið um hæl að barnið vill að glugganum sé lokað eða það sé aðstoðað í peysuna. Þannig hvetjum við börnin til þess að gefa skýr skilaboð um vilja sinn og sjá frekar jákvæðar hliðar á málunum. Blóraböggulshugsun er eitthvað sem við forðumst og í staðinn fyrir að kennarinn taki að sér að skamma barn sem meiðir hvetjum við barnið til þess að hugga vin sinn eða vinkonu og gera þannig gott úr málunum. Hjallastefnan leggur ríka áherslu á það að mistök séu af hinu góða því öll erum við endalaust að æfa okkur í lífinu og æfingin skapar jú meistarann. Við leggjum áherslu á samheldni hópsins og vináttu og venjum okkur á að tala fallega um og við aðra því að eitt bros eða falleg orð gera heiminn betri. Umfram allt reynum við þó að rækta okkar eðlislægu kæti og gleði við hvert tækifæri því leikskóli á fyrst og fremst að vera skemmtilegur til þess að börnin nái árangri.


Umhverfi og efniviður: einbeiting og sköpun
Markmið Hjallastefnunnar er að börnin nái að einbeita sér að því sem skiptir máli í leikskólanum; verkefnunum sínum og samskiptunum við hin börnin. Leið okkar að þessu marki er að hafa umhverfið eins áreitalítið og mögulegt er. Þess vegna er leikefni hjallaleikskóla geymt í lokuðum skápum þegar ekki er verið að nota það og veggir eru aðeins skreyttir myndverkum barnanna í ákveðinn tíma svo upplifun barna af sköpun rykfalli ekki! Bakgrunnstónlist er ekki notuð í leiktíma barnanna til þess að minnka hávaða en hins vegar er tónlist óspart notuð í hópatímum við dans, söng og myndlist. Þetta einfalda umhverfi hefur reynst börnum sem eiga við hegðunartruflanir og einbeitingarskort afar vel og álítum við að það henti öðrum börnum líka. Það hefur sýnt sig að börnin ná að einbeita sér betur að leiknum þegar ekkert í umhverfinu glepur augu, eyru og litlar hendur og niðurstaðan verður sú að samskiptin þeirra á milli verða ríkulegri.
Markmið Hjallastefnunnar er að efla skapandi hugsun barnanna og til þess notum við opinn efnivið. Opinn efniviður er allt efni og dót sem býður upp á margar lausnir í stað einnar fyrirfram gefinnar. Hefðbundin leikföng hafa yfirleitt eina fyrirfram vitaða niðurstöðu; t.d. bendir dúkka til þess að hana eigi að nota í dúkkuleik og bíll til þess að hann eigi að nota í bílaleik. Hjallískur leikskóli býður börnunum þessvegna einungis upp á opinn efnivið sem getur leitt til margskonar leikja og lausna, allt eftir löngun og hugdettum barnanna sjálfra. t.d. getur trékubbur hvort sem er verið bíll, bátur, kind, hús eða barn og ef einhvern langar í bílaleik og er staddur í leirkróki þá „leirar” viðkomandi sér bara bíl! Sá opni efniviður sem við notum eru; föndurvörur- og áhöld, leir eða leikdeig, vatn og sulluáhöld, stórir og smáir trékubbar, púðar, dýnur og teppi. Niðurstaðan er sú að leikur barnanna verður fjölbreytilegri og hugmyndaauðgi og sköpun þeirra sjálfra fær að njóta sín.

Valkerfi Hjallastefnunnar
Síðustu aldirnar hefur skólafólk tekist á um hvort skuli skipa hærri sess í uppeldi ungra barna; formleg kennsla eða uppgötvunarnám. Virðist tilhneigingin vera sú að formleg kennsla tekur sífellt stærri hluta námsins yfir þó svo fræðifólk á sviðinu sé sammála um að uppgötvunarnám sé nauðsynlegt vegna eðlilegrar tilhneigingar barna til þess að nota forvitni sína og orku til að rannsaka heiminn. Hins vegar eru flestir sammála um að ákveðna hluti skuli og þurfi að kenna og því sé uppgötvunarnám eitt og sér ekki nóg. Aðferðir Hjallastefnunar hafa báða þessa þætti innbyggða; þ.e. hópatímarnir innihalda hina formlegu kennslu í umsjón kennarans en valtímarnir gefa uppgötvunarnámi barnanna sjálfra umgjörð þar sem leikurinn fer fram ótruflaður af hinum fullorðna sem á valtímanum er einungis í gæslu- og aðstoðarhlutverki.
Valfundur
Annan hvern klukkutíma hittast því börn hvers kjarna í valfundakróknum sínum og velja sér viðfangsefni næstu klukkustundar. Börnunum er algerlega frjálst að velja sér það viðfangsefni sem þau sjálf kjósa og leggjum við mikla áherslu á að valinu sé ekki ,,stýrt” á neinn hátt; þ.e. að kennarinn hlutist ekki til um hvað börnin velja. Valfundurinn er tækifæri fyrir börnin til þess að æfa vilja sinn og taka ákvarðanir, gagnstætt við hópatímana þar sem þau æfast fremur í að fara eftir fyrirmælum kennarans. Þó svo valtímanum sé fyrst og fremst ætlað að vera rammi um hinn frjálsa leik barnanna er þó engin tilviljun hvaða viðfangsefni eru í boði eða hverskonar leikefni; bak við hvern krók og hvert verkfæri sem þar er í boði er ákveðinn tilgangur sem ætlunin er að útskýra í eftirfarandi úttekt.
Kusk á milli tánna á vinkonunni!

Drottningar í höllinni í Leikstofu
Kjarkæfing
Í Kubbakrók
Vera búin að búa til stafinn sinn úr brauðskorpunni :)

Já, það er orðið opinbert. Ég er augljóslega orðin ein af þessum svakabrjálæðislega ánægðu Hjallamömmum. Enda blómstrar Veran mín þarna og ég finn hvernig Hjalli er að aðstoða okkur foreldrana við að gera hana að yndislegri manneskju. Það eru jú börnin okkar sem munu breyta samfélaginu okkar til hins betra og þar er mótun á leikskólanum algjört krúsíal atriði. Foreldrarnir gera jú sitt og eru eins mismunandi og þeir eru margir, en að eiga svona stað eins og Hjalla eru algjör forréttindi.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker