<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 30, 2007

Bréf af bökkum Þjórsár 

„Kæri Hafnfirðingur.

Nú stendur fyrir dyrum atkvæðagreiðsla meðal Hafnfirðinga um stækkun álvers í Straumsvík.
Með þessu bréfi viljum við vekja athygli á því, að þau áform eru mjög alvarleg fyrir fleiri en Hafnfirðinga. Við sem skrifum þér nú, búum í sveitinni sem mun leggja til rafmagnið í stækkun ef af verður.

Þær virkjanir sem þegar hafa verið reistar í Þjórsá eru ofan byggðar, en nú er áformað að virkja Þjórsá sisvona í túnfætinum hjá okkur. Landslagi í og við Þjórsá yrði umturnað frá Gaukshöfða og langleiðina til sjávar. Fimm stór uppistöðulón yrðu þá í einu sveitarfélagi. Urriðafoss, Hestfoss og Búðafoss hyrfu, eyjar sykkju og árfarvegurinn myndi nánast þorna upp á löngum köflum. Aðkoman að Þjórsárdal, eins þekktasta ferðamannsvæðis Íslendinga, myndi sökkva í Hagalón. Margar bújarðir myndu skemmast og lífríki Þjórsár skaðast.

Okkur líður verulega illa við þá tilhugsun að ráðist verði að þessu fagra svæði. Engin rök hníga í þá átt að almenningur stuðningur sé hér í sveitinni við þessa framkvæmd, og undrumst við þann málflutning, enda fremur ólíklegt að nokkur kæri sig um jökullón nánast gutlandi upp á tröppur hjá sér ótilneyddur.

Þess vegna biðjum við þig, kæri Hafnfirðingur, að hugsa til okkar austur í sveitum, og hjálpa okkur við að vernda stolt okkar, hana Þjórsá, skraut hennar, fossa, flúðir, hólma, eyjar og bújarðir þannig að komandi kynslóðir fái notið hennar eins og hinar fyrri.

„Sælir eru hógværir, því þeir munu landið erfa.“

Með einlægri kveðju,
f.h. unnenda Þjórsár

...“
Og undir skrifa 23 aðilar sem búa á bæjum á svæðinu, fyrir hönd allra hinna.

Þetta bréf fengu Hafnfirðingar inn um lúguna hjá sér í gær.

Ég fékk smá sjokk við að lesa þetta hjartnæma bréf. Íbúar þarna á svæðinu eru í raun að grátbiðja okkur bæjar- og borgarbúa að eyðileggja ekki landið þeirra - eitthvað sem hefur farið alltof lítið fyrir í umræðunni.

Þetta álmál er stórt og kemur miklu fleirum við heldur en einungis Hafnfirðingum, og ábyrgð okkar Hafnfirðinga er stór.

Auk þess að hugsa um framtíð barna okkar, mengun og heilsuna og orku framtíðarinnar, megum við ekki gleyma fallega hálendinu, sveitinni og búlöndunum sem fullt af fólki hefur lagt ævivinnu sína í að byggja upp og lifir fyrir.

Þegar ég segi nei á morgun hugsa ég sterkt til fólksins sem skrifaði mér þetta einlæga griðarbréf.

Þið Hafnfirðingar sem hugsið jafnvel jákvætt um stækkun eða eigið eftir að gera málið upp við ykkur, kíkið á Sól í Straumi og skoðið umræðurnar þar.
Sól sól skín á mig.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker