<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Tvö ár og sjö mánuðir... 


...síðan Vera fæddist.

Í dag er uppáhaldsleikurinn sem fyrr mömmó. Vera er mamma allra dúkkanna sinna. Nýlega eru þær samt stundum litla systir hennar. Hún er allt í einu að missa sig yfir litlum börnum og sagði um daginn að hana langaði í litla systur. Ég svaraði rólega (áhugaleysislega?): Já, já, kannski seinna. Þá kom frá minni: "Nei mamma, NÚNA!".

Vera talar orðið fyrir dúkkurnar sínar, aðallega með mjórri röddu"mamma, mamma... mamma mín" og "mamma mín, ég elska þig", voða fallegt. Umönnunarhæfileikar Veru eru ómældir, hún er sífellt að hugga, gefa, pakka inn, svæfa, lesa fyrir dúkkurnar og knúsa þær. Aðrir leikir núna er að Veru finnst gaman að leika kisu, þ.e. að vera kisa. Sem heitir Mjása. Þegar hún hrekkur í þann gír skríður hún um húsið mjálmandi og biður um mjólk að lepja. Þá er líka vinsælt að leika Mikka ref. Röddin breytist og hún brettir upp á litla nefið sitt og segir: "Á ég að éééééta þig?".

Vera í flottu sparikápunni minni hér myndinni til hliðar (hvernig finnst ykkur húsið þarna í bakgrunni?!)


Kaffiboðsleikur er nýtt fyrirbæri hjá Veru. Þá lokar hún sig inni í herbergi og kallar svo eins hátt og hún getur: "Maaammma, gakktu í bæinn". Þá á ég að banka og hún opnar dömulega og segir: "Viltu ganga í bæinn? og "Viltu kaffi?" Hún hellir þá upp á kaffi með því að gramsa lítið eitt í eldhúsinu sínum og svo sitjum við eins og tvær hefðarfrúr og sötrum ímyndað kaffi með múmínbollastellið hennar. Svo verðum við að hræra reglulega í kaffinu með skeiðinni af því það er svo heitt. Eins er hún mikið í því núna að gefa mér alls konar afmælispakka. Pakkar einhverju dóti sem hún á inn í teppi eða einhver föt, eða setur í tösku og gefur mér. Þá á ég að segja takk og knúsa hana fyrir.

Um daginn sullaði Vera niður mjólk á borðið þegar hún var að borða seríósið sitt og sagði: "Hei, mamma þú verður að sjá - það er mjólkurkind á borðinu okkar". Ímyndunaraflið er s.s. alveg í lagi.

Vera er alltaf dugleg að segja mér fréttir af leikskólanum: "Bryndís var veik í dag". "Stefán pabbi hennar Sóllilju kom að sækja hana". "Bríet Dalla var að lemja Hrefnu Sif. Hún fór að gráta og ég var að knúsa hana"... oooooo músin mín.


Nýjasti frasinn: Guð minn góður!


Vera búin að búa til afmælispakka úr pabba sínum

Mamman Vera að lesa fyrir barnið sitt


Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker