<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Útihlaupakjéllingin ég 

Útihlaup númer tvö var framkvæmt núna síðdegis í dag. Númer eitt í mörg ár var einmitt í gær og gekk ágætlega miðað við myrkur og byrjendabraginn á stíl og úti-öndun. Það er ótrúlegt hvað maður framleiðir mikið af slími í útihlaupi og daman ég hrækti bara og snýtti mér á harðahlaupum eins og vanasti maraþonhlaupari. Og ég var bara í ca. 3-4 km. Alla vega, þetta gekk betur í dag en í gær þrátt fyrir veðurbarning mikinn sem samanstóð bæði af roki og rigningu. Í gær var ég líka alveg á pjöllunni með það hvert ég var að hlaupa. Það er ekki eins og það sé ekki nóg að þurfa að einbeita sér að því að misstíga sig ekki í myrkrinu á misfellunum (hlaupabrettið er mjög slétt), berjast við það að anda í mótvindi og grenjandirigningu, að ég hafi einnig þurft að ákveða líka jafnóðum hvert skyldi hlaupa. Þá er líka svo auðvelt að hafa ástæðu til að stoppa. Stoppa til að hugsa um hvað skal gera næst. Og ég nenni ekki að hugsa þegar ég hleyp. Hægri eða vinstri? Úff þvílík ákvörðun sem þarf að taka á augnabliki. Fyrir utan það hvað ég er léleg í hægri og vinstri (já, snilligáfu fylgja víst alltaf einhverjir skrýtnir kvillar). Það á náttúrulega ekki að hleypa manneskju eins og mér, sem er með valkvíða á sæmilega háu stigi og með eindæmum áttavillt og óratvís, jafnvel í Hafnarfirði, út að hlaupa án þess að hafa hlaupahringinn vel niðurnegldan. Búið að fara yfir hann á korti í power point, keyra hann nokkrum sinnum og svona.

Því rauk ég út og beinustu leið upp á Kaplakrika í dag. Tók þar nokkra hringi með íslandsmeisturum FH á hlaupabrautinni og átti alveg roð í þá (getur verið að þeir hafi verið að skokka - hita sig upp fyrir æfingu?!). Þar til Ipodinn ákvað að frjósa, þá var komið gott, enda um hálftími liðinn á góðum hlaupum. Að ég held, en ég finn hvað mig sárvantar eitthvað mælitæki sem segir mér hvað ég er að hlaupa ógislega hratt og hvað tímanum líður. Brettið í World Class er búið að ala mig þannig upp að upplýsingarnar eru drævið mitt. Ennþá. Ipodinn fraus og þá var gamanið úti. Ég kann ekki að hlaupa án playlistans míns sem samanstendur mestmegnis af danslegum hitturum og auðvitað Justin. Stuðið spýtist um æðarnar og vélin bara hleypur. Stundum langar mig mest til að stoppa og taka nokkur dansspor en sleppi því bara af því það eru svo margir sem myndu glápa. Tek nokkur valhopp inn á milli og tek djævið út þannig, það tekur enginn eftir því.

Ég er að fíla þetta útihlaup, tíminn líður svakalega hratt á hlaupum og umhverfið er vænna fyrir bæði augu og lungu. Útiveran er líka eitthvað sem lætur manni líða hraustlega, þótt ég harðneyti að hlaupa í frosti og snjó takk fyrir.
Shit, ég er að umbreytast í svona brjóstalausa maraþonhlaupakjéllingu!
Eða sjáum hvað ég dugi.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker