<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, janúar 28, 2007

Helgarrapportið (ó)merkilega 

Helgarfrí án djamms og þynnku geta verið alveg jafn flott og helgardjömmin sjálf. Þessi helgi var svoleiðis. Hefðbundin foreldrastörf fóru fram með gleði og gaum, íþróttaskólinn án þess að vera mygluð, gefa brabra án þess að vera að drífa sig heim vegna timburmannaskjálfta, róló þar sem maður svingar sér framogtilbaka og rambar upp og niður án þess að hugsa sig um vegna hausverks og meira að segja var hrært í vöfflur án ógleði - enda fengum við fullt af sunnudagsheimsóknum í dag. Það er alltaf gaman að fá fólk í höllina, og hvað þá bjóða því upp á fjúsjonvöfflur.

Ég fann hið fullkomna borðstofuljós um helgina og það var meira að segja á útsölu og var langt frá því að vera nálægt því að kosta 80.000 kr., eins og draumaljósið mitt áður en ég sá þetta, kostaði. Þá er bara að bora gat í loftið, tengja rafmagn og hengja djásnið upp. Allir rafvirkjar sem ég þekki eru sem sagt extra velkomnir í heimsókn á næstunni - vöfflur og jafnvel eitthvað ennþá girnilegra í boði fyrir viljuga!

Annars er það helst fréttnæmt að ég skellti mér í bíó fyrr í vikunni og sá Foreldra. Hún er alveg frábær, jafnvel betri en Börn sem er líka þrusugóð. Ég mæli hiklaust með henni jafnt fyrir foreldra sem single. Myndin er mjög raunsæ og það eru ótrúlega flottir karakterar í henni. Ég segi það með stolti að ég grenjaði heilmikið oní popppokann á myndinni. Skil reyndar ekki af hverju Ingvar Sigurðsson er ekki heimsfrægur. Kannski af því hann er aumingjans Íslendingur. Hann var alveg kreisí flottur í Foreldrum.

Eins er ég, konan sem er svo allt annað en sjónvarpsvæn, búin að liggja yfir bíómyndum sem ég fékk inn á tölvuna fyrir helgina. Sá m.a. Babel sem er alveg frábær. Ég elska svona raunsæjar sögur. Er ekki mikið fyrir óraunsæ ævintýrin. Er ábyggilega ein af 10 í öllum heiminum sem t.d. fíla alls ekki Lord of The Ring. Sofnaði svo yfir Rocky Balboa í gærkvöldi...er greinilega ekki mikið fyrir boxið og lætin, en Dreamgirls lofa góðu í kvöld. Ég dýrka söngvamyndir í hvaða formi sem er, þær eru flestar alltaf svo hamingjusamar og jákvæðar. Dansandi glaðar.

Talandi um bíó og sjónvarp, þá þori ég kannski núna að segja upphátt (en samt lágt)að ég á mér leyndan draum (ok, varla leyndur lengur) sem tengist sjónvarpi. Að búa til heimildarmyndir. Alla vega heimildarmynd í eintölu. Raunsæjar mannlífsmyndir um sammannleg málefni. Þar sem mannfræðingurinn ég fæ að kafa ofan í spennandi efni, tækla menningu í sinni víðustu mynd frá spennandi sjónarhornum um viðfangsefni sem fólk getur samsamað sig við hvar sem það er í heiminum. Tja, eða verið gáttað og furðað sig á og lært eitthvað nýtt. Að hlusta á fólk og rannsaka um leið. Tengja og setja fram fyrir áhorfendur. Segja sögur. Já, ætli flestir eigi sér ekki drauma sem þennan. Drauma sem maður veit ekki einu sinni hvar maður ætti að byrja til að koma í framkvæmd. Best að setja þetta nú samt á 5 ára planið og athuga hvað gerist.

Annað markvert er kannski að eftir að hafa horft á sætu strákana OKKAR tapa fyrir Djermaní og gúffað í mig vöfflum og fleira djúsí dóti, þá skellti ég mér ÚT að hlaupa í fyrsta sinn í nokkur ár. Já, ég bjó til hlaupaplaylista á Ipodnum sem samanstóð mest af einhvers konar dans og djammlögum sem koma mér í gír, mín klæddi mig í spandexið, smellti heyrnartólunum á mig og rauk af stað. Ég fékk hlaupasting strax á fyrstu metrunum, illt í hálsinn vegna kuldans (það er sko kalt miðað við í World Class!) og fann strax að gangstéttin ætlaði ekki að hjálpa mér snefil eins og brettið gerir. EN ég lét það ekki á mig fá og naut þess að hlaupa bara eitthvert út í buskann í myrkrinu og rigningunni. Þetta er það sem koma skal, alla vega 1 x í viku. Þetta er ekta, world class er bara gervi muniði.

Annars hef ég verið að hugsa aðeins um þetta blogg og það að blogga yfir höfuð. Þegar pabbi minn hringi í mig um daginn og minntist á að hann hefði lesið hitt og þetta á blogginu. Og að um daginn hefði ég ekki skrifað í nokkra daga og hann hafi nánast orðið viðþolslaus vegna þess.

Ég hef gaman af því að skrifa. Af því að tjá mig, segja sögur og monta mig af afrekum og Verunni. En stundum hugsa ég um það hvað það er skrýtið að allir fái að vita svona mikið um mig af þessari síðu og ég ekki neitt um alla. Því ég er drulluforvitin! En valið er jú mitt og ég ætla að halda eitthvað áfram. Þið þurfið bara að vera duglegri að hringja í mig (feimnir eins og ég mega senda meil - skrifuð orð eru oft einfaldari en töluð!) og segja mér fréttirnar ykkar hvort sem þær séu ómerkilegt helgarrapport sem snýst um draumaborðstofuljósið eða hvaða gæi í íslenska landsliðinu er sætastur (Róbert eða Markús?).

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker