<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, október 28, 2006

Vera 2,3 

Vera varð 2,3 ára þann 25. og er auðvitað allt önnur og eldri Vera en fyrir mánuði síðan. Því er óneitanlega kominn tími til að fara yfir helstu afrek og áhugamál.

Vera er engill.
Hún er samt með skap og er þrjósk og allt það svona eins og tveggja ára börn eiga að vera. Í brjálaðri sjálfstæðisbaráttu. Ef Vera neitar eða er með stæla, þrjósku eða læti þá skamma ég hana og reyni auðvitað að fá hana með mjúkum leiðum til að haga sér (hvað sem það nú þýðir). Vera hefur þróað mjög skemmtilega leið til að höndla þrjóskuna í sér. Eftir að mamman er búin að segja henni að "látiggisona" þá líður smá tími þar til mín segir með sætan grettulegan prakkarasvip í andlitinu: "Ég var bara að grínast!" Og allt fallið í ljúfa löð eftir það. Aha, hún var bara að grínast. Ahbú. Sem er auðvitað frábært. Stundum spyr ég hana hvort hún sé ekki bara að grínast og þá lætur hún strax af stælunum og segir: "Júuuuuuú mamma, Vera bara grínast!" Alveg sætt, og flott leið hjá minni!

Eitt aðaláhugamál Veru í dag er að lesa bækur. Hún les mikið sjálf ásamt því sem við foreldrarnir grípum af og til í bók fyrir hana. Auðvitað er alltaf lesið fyrir svefninn. Disney bækur eru almennt í uppáhaldi núna. Frílsi og Gúri og félagar. Þið þekkið þetta. Agalegt stuð. Uppáhaldsbókin fyrir svefninn er hins vegar án efa Vísnabókin. Vera elskar að syngja og er sísyngjandi hin og þessi lögin og við syngjum mikið saman. Í Vísnabókinni þekkir hún hvaða lög eiga við hvaða myndir. Það á að syngja ALLA bókina og getur það tekið dágóða stund fyrir háttinn. Ef mamman nennir ekki að syngja þá syngur hún bara sjálf. Kann orðið eiginlega öll lögin í bókinni og nokkur í viðbót sem hún lærir á Hjalla og reynir að kenna mér. Eitt lag söng hún til dæmis í dag sem fjallaði um að eiga tungu og tvö lungu og eitthvað meira sem ég reyndar skildi ekki, og reyndi hún mikið til að fá mig til að læra lagið. Það tókst ekki. Ég þarf að kaupa Hjallageisladiskinn með öllum Hjallalögunum, þetta gengur náttúrulega ekki, daman er upprennandi stórsöngkona! Það á reyndar eftir að koma betur í ljós hvort hún haldi lagi eða ekki en stórsöngkona er hún í dag eigi að síður.

Ef ég ætti að nefna uppáhaldslag núna þá er það kannski einna helst Gamli Nói, af því hann er alveg sérstaklega fyndinn þegar hann er að strumpa strump (duppa dupp), kyssa frú sem hann lætur pissa og renna og láta bossann brenna. Þegar hún syngur þessi lög grípur mín fyrir munninn í bakföllum af hlátri og segir "Ég trúi því ekki!" Vera syngur einhvern sjálfsaminn FH söng einnig mikið. Er raulandi fyrir munni sér í tíma og ótíma: "eeeeefffffff háááááá" og við foreldrarnir vitum ekkert hvar hún lærði þetta því víst er að fh-ingurinn pabbinn syngur ekki og mamman ekki mikið að fylgjast með fótbolta. Leikskólinn?!
Reyndar fór Vera á 2 FH leiki í sumar en varla náði hún þessu þar. Hún er augljóslega bara sannur FH-ingur. Þegar pabbinn er að horfa á enska eða kínverska boltann þá spyr Vera alltaf frekar áhugasöm: "FH?" - og horfir jafnvel á fótbolta í dágóðan tíma með pabba sínum. Enda með mikinn áhuga á sjónvarpi og hvers kyns sjónvarpsefni eins og ég hef áður getið um.

Veru finnst gaman að ryksuga og á orðið sína eigin ryksugu. Eftir að hafa farið í heimsókn til lítils vinar sem átti ryksugu og ryksugað þar gólf og veggi í nokkra klukkutíma var að sjálfsögðu keypt dótaryksuga á heimilið. Hún ryksugar í alvörunni og það fylgdi sko drulla með og allt. Litlar hvítar kúlur út um allt... En mín er ötul við að ryksuga sem er ábyggilega bara jákvætt :S Eins hugsar hún enn mikið um dúkkurnar sínar og dettur mikið í það að setja alls konar dót í þær mörgu alls kyns töskur sem hún á. Já, hún er dundari af bestu gerð. Af og til heyrist þó: "Mamma, hjáppa mér að leika"... og ef ég segist ekki nenna því þá leikur hún bara sjálf :)

Vera fór í fyrsta sinn í bíó um síðustu helgi. Við fjölskyldan fórum að sjá Disney myndina Óbyggðirnar. Vera sat stjörf allan tímann, alveg kyrr og rétt náði að setja eitt og eitt poppkort upp í sig og taka nokkra sopa af svala, hún var svo einbeitt að horfa. Af og til heyrðist í henni upphátt: "Pabb´ans leita að Rabba", "Græni kassinn er þaaaaaarrrna"!! (Rabbi var sko í græna kassanum). Já, hún lifði sig inn í myndina og er enn að tala um bíóið. Svo á hún bókina og rifjar því bíóferðina reglulega upp þegar hún les hana. Næst á dagskrá er svo að fara í leikhús með dömuna. Veit að hún á eftir að elska það.

Vera talar mikið og vel og auðvitað er margt fyndið sem dettur upp úr henni. Það sem ég man í fljótu er t.d.

- Vera talar mikið um vini og vinkonur. Greinilega eitthvað sem verið er að æfa eða ræða um á leikskólanum. Ef einhver er að koma í heimsókn eða það er verið að tala um einhvern þá segir Vera: "Hún vinkona mín. Líka mömmu og líka pabba". Allir vinkonur!" Svo segir hún oft: "Mamma vinkona mín. Pabbi vinur minn. Vera vinkona mömmu. Vera vinkona pabba. Allir vinkonur!"

- Vera virðist hafa fengið alla vega hluta af forvitnisgeninu móður sinnar. Þegar síminn hringir segir mín undantekningarlaust: "Hver var þetta?" Mamman: "Þetta var Sigga." Vera: "Jaaaá, Sigga vinkona mín". Hehe.

- á morgnanna þegar Vera vaknar og það er að birta til segir Vera: Sólin er að vakna (aaahhhh alveg krúttlegt). Núna þegar það er ennþá dimmt þegar við förum út á morgnanna spurði Vera um daginn mjög hissa hvort sólin ætlaði ekki að vakna...

- Vera er athugul á veðrið og segir mér iðulega þegar það er rigning úti eða mikið rok. Svo þegar það fer að dimma seinnipartinn segir hún hissa á innsoginu: "Koma nóttin". Þetta er alveg daglegt brauð. Veðurfarið og birtuskil er henni greinilega hugleikið.

- Vera er voða ljúf og kurteis og segir oft á dag: "Oooó, fyjigefu mamma mín", ef henni finnst hún hafa gert eitthvað á minn hlut, hvort sem er að óhlýðnast eða snerta mig aðeins of harkalega. Eins segir hún þetta ef hún ruglast, hvort sem er á orðum eða ef ég leiðrétti hana á einhvern hátt. Ji, þetta er svo sætt.

- Ég keypti nýjar nærbuxur á hana um daginn og sagði henni frá því. Var að fara að sýna henni þær þegar mín segir svaka spennt: "Vá, Vera fá spædimann nærbuxur"! ...neeei, ekki alveg, það var bara lítil stjarna á þeim. Mín var alveg sátt en greinilega aðeins að smitast af spædermannsýkinni í Úlfi vini okkar, sem er með hana á háu stigi.

- talandi um föt þá á Vera "töffa(ra)buxur" sem eru gallabuxur. Eitt sinn þegar hún var komin í töffarabuxurnar sínar sagði hún: "Mamma, Vera kúl" - hmmmm...!

- Vera telur mikið upp vini sína og vinkonur með nafni, stúlkurnar á Hjalla og svo Auðun Gauta og Úlf. Úlfur og Auðun Gauti eru í íþróttaskólanum og eftir það er mikið talað um þá. Einnig talar hún um Skarpa frænda oft upp úr þurru og segir þá iðulega: "Mamma, Skarpi sætur" hehe. Jú, jú, hann er auðvitað extra sætur svona langt í burtu :)

- Vera sagði mér um daginn að stór börn nota bara duddu þegar þau fara að sofa. Litlu börnin nota bara duddu því ef maður tekur hana þá fara þau að gráta. Mikil speki á bakvið þetta hjá minni og eitthvað verið að spá í hver er stór og hver er lítill ásamt því hver er með duddu og hver ekki. Sjálf notar Vera dudduna bara þegar hún leggur sig, á daginn og á kvöldin. Hefur alltaf minni og minni þörf fyrir hana. Ætla meira að segja að prófa á næstunni að athuga hvort hún fatti að hún sé ekki með snuð þegar hún fer að sofa. Maður má vera bjartsýn!

-Vera elskar að láta kítla sig og ærslast í sér og það gerum við oft og iðulega. Mín er svolítið fyrir að stjórna leikjunum samt og ákveður harðri hendi hver á að kítla hvern næst og hvar og hvort það sé kítla eða puðra núna og hvar og allt það. Alls ekki sama hvernig þetta er gert sko. "Núna, mamma - purra mallann, - neeeeii, ekki tásluna, mallann!"

- Einn skemmtilegur "leikur" sem Veru finnst gaman að fara í og stingur oft upp á að við leikum (og sem ég reyndar neita oft að fara í og skil ekki hvernig varð til) er: "Mamma, rífast! - Vera segja já og mamma nei" eða "Vera segja nei og mamma víst"... ætli maður hafi ekki mótmælt henni oft og hún lært þetta af því, en henni finnst þetta voða gaman. Gaman að óhlýðnast hehe. Foreldrarnir reyna alla vega að rífast ekki fyrir framan dömuna!

Og þetta var helst í fréttum um Veru 2,3 ára.
Hún er algjört æði.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker