<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, október 08, 2006

Rauðhærða afturgangan ég 

Þegar ég var lítil var ég rauðhærð sem nú. Ok, þó nokkuð rauðhærðari, ég viðurkenni hárskolið í dag. Ég var líka frekar hávaxin miðað við aldur og voða grönn og slánaleg. Svo var ég hvít, með freknur og frekjuskarð. Svona volítið eins og lukkutröll eða tröllabarn, eftir því hvernig á það er litið. En alla vega, svona um 9-10 ára aldur var ég uppnefnd nafni sem ég man að mér fannst ekkert sérlega frábært. Ég var Rauðhærða afturgangan! Æðislega gaman að vera afturganga og hvað þá rauðhærð líka. Ég man að ég tók þetta dálítið nærri mér en var samt ágætur töffari og litaði ekkert á mér hárið og fór í ljós eða neitt þannig. Ég bara man hvað mér fannst þetta glatað. Hélt ég væri í alvöru það hvít og ljót og draugaleg að ég væri eins og afturganga - og svo væri rauða hárið bara til að bæta gráu ofan á svart.

Svo bara gleymdist þetta einhvern veginn og uppnefnið hvarf með tímanum. En ég hef nú samt aldrei gleymt því. Við erum ekki að tala um neinn eineltispakka hér (kannski í dag væri það kallað það...) eða þannig, heldur svona stríðni sem maður hafði ekki svar við og lét sem vind um eyru þjóta.

Alla vega,
Svo var ég í brúðkaupi um daginn. Ég var í nýjum rauðum gömlum æðislega flottum kjól sem ég keypti notaðan í second hand búð hér í bæ. Og svo var ég auðvitað með rauða hárið svona eins og vanalega og rauðan sparivaralit. Og þá segir ein vinkona mín við mig eftir að hafa horft rannsakandi hugsandi stríðnispúkaaugum á mig: Jaaaaáá, núna veit ég hvern þú minnir mig á - Rauðhærðu afturgönguna...

Þvílíka hrósið hehe. Mér hefur oft verið líkt við einhvern tvífara sem ég á í Breiðholtinu, Bree í Despó og Julianne Moore sem eru svo la la hrós en þessi samlíking kom verulega á óvart.

Rauðhærða afturgangan var þá til eftir allt. Þetta var karakter í mynd. Íslenskri Draugasögu sem greinilega langflestir hafa séð nema ég. Ég var uppnefnd eftir ákveðnum karakter, og án efa bara af því hún var rauðhærð. Ég var í raun uppnefnd eftir bíómyndastjörnu og ekki er það nú slæmt, ha? Ég fattaði á þessu augnabliki að kannski hafi ég þá ekki verið svona glötuð og ljót á þessu tímabili. Ekki frekar en sá Kalli sem var uppnefndur kanína eða Andrés sem kallaður var önd. Ekki að ég sé búin að velta þessu neitt sérstaklega fyrir mér eftir 10 ára aldurinn, sálfræðitímarnir hafa bara verið í eðlilegu magni og töflurnar sem ég bryð eru alls ekki út af þessu heldur öðru sko ;) En þetta var víst léleg mynd með eindæmum og það er mér pínku huggun. Verð samt að verða mér út um þessa mynd til að fatta dæmið til enda.

Rauðhærða kynslóðin á undan var víst uppnefnd Rauðskalli Brennivínsson og mamma lenti til að mynda í því. Varla er það skárra. Ég á hins vegar 15 ára rauðhærða frænku í dag og spurði hana fyrir nokkru út í þetta, hvort hún hafi einhvern tímann verið uppnefnd út af rauða hárinu og hún vissi ekki hvað ég var að tala um.

En lífsgáta mín leystis þarna á augnabliki.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker