<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 31, 2006

Hversdagslega ég 

Það er svona hversdagshrollur í mér núna. Svona hrollur sem segir alltaf það sama alltaf það sama...

Ég fékk samt agalega skemmtilegar dömur í mat um daginn. Lagði í tilraunaeldhús og allt fyrir þær sem tókst vel. Þær eru mannfræðingar eins og ég og við ræddum um hvað við erum meiriháttar og merkilegar, atvinnutækifæri, langanir og skólamál, hvað við eigum mikla möguleika og hvað framtíðin er þokkalega okkar. Eftir það kvöld fékk ég bjartsýniskast. Elska svona bjartsýnisköst, þau fleyta manni vel áfram næstu daga á eftir og þá daga var ég extra bein í baki og bar höfuðið hærra en vanalega.

Svo þverraði bjartsýnina eilítið þegar Vera fékk gubbupest og helgin fór í það. Og svo fékk ég gubbupest og lá sveitt heima með ælu í hárinu, æðislega sexí, og missti af langþráðum saumaklúbbi sem átti að koma mér aðeins úr hversdeginum.

Hversdagstilfinningin já.
Hún fylgir kannski myrkrinu og kuldanum? Kannski maður sé að skríða í skel eins og mörg dýr gera þegar kólnar. Kannski ég sé bara þannig padda. Nei, ekki misskilja, ég er í sæmilegu stuði svona eins og mér almennt er lagið en ég þori bara að segja það upphátt að stundum er hversdagurinn bara hundleiðinlegur. Venjulegt verður bara of venjulegt og vanabundið fyrir mig. Ég þarf að gera eitthvað í þessu! Ég reyndi meðvitað að koma mér úr þessari tilfinningu í dag þegar ég ákvað að elda eitthvað óvenjulegt í kvöldmatinn. Mér fannst ég taka frábæra ákvörðun úti í Nóatúni þegar ég setti stolt dós af ORA fiskibollum ofan í körfuna. Ég hringdi spennt í mömmu til að fá "uppskrift" að bleikri sósu og fann smá spennandi tilfinningu blossa upp. Alltaf gaman að upplifa eitthvað nýtt, en þetta hef ég aldrei "eldað" áður. Og það tekur bara 5 mínútur og er ógislega flott á litin! Ég gerði sósuna eins skærbleika og ég gat! Ef það þarf ekki meira en bollur í bleikri til að gleðja mig þá getur þetta hversdagssyndrome varla verið svo alvarlegt.

Reyndar neituðu báðir hinir fjölskyldumeðlimirnir að borða matinn en ég át hann með beztu lyzt og líka með bros á vör og sé sko ekki eftir þessari frábæru hversdagslegu tilbreytingu í hversdagsleikann minn.
Go ORA.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker